Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:39:15 (5603)

1998-04-21 13:39:15# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:39]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ástæða er til að þakka hv. 5. þm. Reykn. fyrir að taka málið upp. Það er alveg ljóst að áskorun níutíumenninganna er mjög í anda þeirrar stefnumörkunar sem þingmenn jafnaðarmanna hafa haldið uppi og hafa varað mjög við að gengið sé flausturslega um í þessum efnum. Hér er sannarlega um lagasetningu að ræða sem mun væntanlega standa, ekki vil ég segja um aldur og ævi, en um næstu fyrirsjáanlega framtíð og ekki á hendi nýs þings að gera þar grundvallarbreytingar á.

Þetta er að sönnu ekki nema toppurinn á ísjakanum, virðulegi forseti, því að það eru fleiri stórmál af þessari gerð til umfjöllunar í nefndum þingsins á ýmsum stigum. Lagasetning sem er því sama marki brennd mun væntanlega ef að lögum verður standa um ókomna tíð eða a.m.k. næstu ár og áratugi. Þá er ég auðvitað að vísa til umræðnanna um gagnagrunninn sem er ekki einu sinni kominn til nefndar og í þriðja lagi um húsnæðismálin þar sem verið er að rústa því kerfi sem þjóðin hefur búið við um langt árabil og verkalýðshreyfing og félagshyggjuflokkar hafa byggt upp.

Öll þessi stórmál erum við með undir núna þegar u.þ.b. níu starfsdagar eru eftir af þinginu og stjórnarmeirihlutinn ætlar sér augljóslega að keyra þau í gegn með góðu eða illu. Það gerir hann alls ekki með góðu, virðulegi forseti, það verður gert með illu ef af verður. Ég vil treysta því að forseti þingsins gæti að því að menn fái ráðrúm og nægilegan tíma til að ganga frá lagasetningum af þeim toga sem ég nefndi með þeim hætti sem við verður búið. Það er ekki neinn bragur á því fyrir hið háa Alþingi að rusla út grundvallarlagasetningu á borð við þau þrjú málefni sem ég nefndi hér til sögu og stjórnarandstaðan tekur ekki þátt í slíkum hráskinnaleik og slæmum vinnubrögðum.