Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:41:31 (5604)

1998-04-21 13:41:31# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:41]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er býsna óvanaleg yfirlýsing sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þetta er áskorun frá níutíu þjóðkunnum einstaklingum úr öllum flokkum, jafnt úr flokkum stjórnarandstæðinga sem stjórnarsinna. Það sem þetta fólk er að biðja um er að ekki verði á þessu þingi bundið óafturkræft hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verði háttað, heldur að gefinn verði tími til opinnar umræðu sem þjóðin fái að taka þátt í. Ekki er verið að biðja um neitt annað en að löggjafinn hrapi ekki að neinu um þetta stóra mál.

Vitaskuld, herra forseti, geta verið skiptar skoðanir um hvernig eigi að haga skipulags- og stjórnsýslumálum á hálendinu. Það er ekkert óeðlilegt við það en við eigum, herra forseti, að taka mark á svona yfirlýsingu. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir í samfélagi okkar að slíkar áskoranir hafa verið birtar. Við þekkjum dæmi þess að þær hafa haft mjög mikil áhrif í umræðum. Ég tel, herra forseti, að þessari áskorun sé nákvæmlega eins háttað og oft hefur viljað til. Hér er velviljað fólk sem óskar eftir að koma að umræðu um mikilvægan þátt í þjóðlífinu. Við eigum að fara að þessum óskum, herra forseti, og ég bið forseta um að íhuga vandlega yfirlýsinguna, ræða málin við hæstv. félmrh. og hér innan þings, hvort ekki sé skynsamlegt að fresta afgreiðslu á sveitarstjórnarfrv. þannig að ráðrúm gefist til umræðu og ef menn vilja þá svo, lögfesta það í haust eins og eðlilegt má telja þegar meiri hluti hefur gengið gegnum þá umræðu sem verið er að óska eftir.

Við verðum að átta okkur á því, herra forseti, að við störfum í umboði fólksins og þegar fólk óskar af skynsemi eftir að koma nánar að umræðu án þess að hafa nokkra fyrir fram mótaða skoðun á þingmáli sem við höfum hér þá eigum við að taka þá áskorun alvarlega.