Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 14:53:11 (5615)

1998-04-21 14:53:11# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður heyrt þessa kostulegu kenningu og ekki síst hefur hv. þm. Kristján Pálsson haldið því fram að það að leggja niður allt landamæraeftirlit í Evrópu muni styrkja stöðu manna stórkostlega í baráttunni við eiturlyfin. En það furðulega er að alls staðar annars staðar en á Íslandi og þá kannski helst í Sjálfstfl. eru áhyggjur manna algerlega gagnstæðar. Úti um alla Evrópu hafa menn miklar áhyggjur af því að þá fyrst muni eiturlyfin flæða yfir sem aldrei fyrr og það verði vonlaust að hafa með því eftirlit þegar Evrópa verður landamæralaus að þessu leyti allt frá Miðjarðarhafinu og norður úr. Það hvort þetta breyti meira eða minna fyrir Ísland er kannski dálítið annað mál því við erum eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé ljóst, eyja úti í miðju Atlantshafi. Þar gegnir því svolítið öðru máli. En breytir því ekki að þetta er stórpólitísk ákvörðun og eitt af mjög mörgu sem menn hafa þarna bent á og haft áhyggjur af, er einmitt þetta, að eiturlyfin muni flæða eftirlitslaust fram og til baka um álfuna sem aldrei fyrr.

Um ástand mála í Keflavík er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að það er ein hrikaleg óráðsíu- og sorgarsaga hvernig með fjármál hefur verið farið þar frá upphafi, allt frá því þetta sukkmonthús var byggt, margfalt dýrara en nokkur glóra var í. Jafnvel bara hlutur Íslands, þrátt fyrir betlipeningana frá Bandaríkjunum, varð miklu dýrari en skynsamleg bygging á hófsamlegum nótum hefði þurft að vera. Fyrir utan það að hún hefði ekki þurft að vera svona illa hönnuð að ekki er nokkur leið að gera eiginlega neitt við hana, byggja við hana eða nokkuð annað. En það voru kosningar og menn þurftu að mynda sig fyrir framan bygginguna eins og kunnugt er. Það er rétt að miklar tekjur verða til í Keflavík og ég hef ekki gagnrýnt það að meira af þeim tekjum hefði mátt ráðstafa til að greiða niður kostnaðinn af byggingunni eða rekstrinum þar.

Ég bendi t.d. á að mikill hagnaður Fríhafnarinnar, svo skiptir hundruðum milljóna, nálgast milljarð króna, hefur runnið í ríkissjóð. Það er ekkert því til fyrirstöðu að menn hefðu miklu fyrr getað tekið á þessum skuldahala þar og hafið að borga af þessum lánum, hefðu menn haft pólitískan vilja til þess á undanförnum árum. En það hefur ekki verið gert þannig að ekki ber að skoða mína gagnrýni sem svo að ég leggist gegn því að fjármálunum sé komið í lag í Keflavík. Að sjálfsögðu þarf að gera það.