Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:13:06 (5620)

1998-04-21 15:13:06# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hvers konar bragur er á fundahaldinu hér og málflutningi hæstv. samgrh.? Trúir hæstv. samgrh. því virkilega að hann geti eitthvað stytt umræður með því einu að snúa upp á sig og svara ekki einföldum og kurteislega orðuðum spurningum? Að hann geti lítilsvirt þingmenn með þeim hætti að hrista bara höfuðið og snúa upp á sig ef spurningar eru óþægilegar? Því að spurning mín sem ég kom með í andsvari við hæstv. ráðherra var eins einföld og skýr og frekast mátti vera. Ég var í upphafsræðu minni búinn að spyrja þeirrar spurningar a.m.k. tvisvar ef ekki þrisvar. En hæstv. ráðherra tókst hins vegar í sinni stuttu og innihaldslitlu ræðu að snúa þeim málum endanlega á hvolf og gerði það með útúrsnúningum. Talaði um að þá fjármuni sem upp á vantaði mætti bara stemma af þegar og ef einhverjar tekjur kæmu sem væru óséðar og kannski einhver gjöld og allt væri nú þetta innan skekkjumarka. Er það þannig sem á að fara að gera upp hlutina hér, hafa þá innan skekkjumarka, á einhverju gráu svæði? Til hvers í veröldinni erum við þá að þessari áætlanagerð? Hvaða tilgangi þjónar hún?

[15:15]

Virðulegi forseti. Ég frábið mér þakkir hæstv. samgrh. til samgn. hvað mér viðvíkur ef hann trúir því að málefni í meðhöndlun nefndarinnar þýði að hann sé stikkfrí og þurfi ekki að koma að málum. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég gerði það yfirleitt ekki að venju minni að biðja um viðveru ráðherra við 2. umr. mála vegna þess að fyrst og síðast er um mál þingsins að ræða. En í þessu tilviki er það óhjákvæmilegt því að það var ráðherra sjálfur sem kom inn í þessa málsmeðferð sem hér liggur fyrir með því að setja tekjuhlið áætlunarinnar á hvolf sem gerði það að verkum að menn urðu að breyta gjaldahlið hennar. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra þykir það einhverjir smáaurar, 13 millj., 17 millj., 19 millj. og 21 millj. Þetta eru eru um 60 millj. þegar lagt er saman. Ég er handviss um að margir flugvellir og flugrekstraraðilar og aðrir sem koma að málinu mundu fegnir vilja sjá fá þessa fjármuni. Ég læt ekki bjóða mér það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra ætli að neita að svara eðlilegum spurningum af þessum toga og taka síðan þátt í málefnalegri umræðu. Það skal hann vita að ef hann ætlar að hafa þennan hátt á. Við höfum auðvitað tök á því að ræða málin mjög ítarlega og fara yfir verkefni frá A til Ö við 3. umr. málsins. Þá skulum við bara gera það.