Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:24:10 (5625)

1998-04-21 15:24:10# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki enn á því um hvað hv. þm. er að spyrja. Ég held að honum hljóti að vera ljóst að í sambandi við fjárlagagerð hverju sinni er óskað eftir því við samgrn. að það leggi fram nýjar tekjuáætlanir, bæði í vegáætlun og flugmálaáætlun, sem eru nauðsynleg undirgögn við gerð fjárlaga hverju sinni. Þess vegna er augljóst mál að tekjuáætlun flugmálaáætlunar kemur til endurskoðunar á hausti komanda. Það gerist alltaf í sambandi við fjárlög.

Ég hygg að við getum verið sammála um það, ég og hv. þm., að eins og þau gögn liggja fyrir sé við því að búast að tekjurnar verði heldur meiri en minni og að Flugmálastjórn sé afturhaldssöm í sambandi við tekjurnar. Ég hygg að við getum verið sammála um það. Þess vegna held ég að ekki komi til þess að nauðsynlegt verði að brúa eitthvert bil frá framkvæmdaáætlun eins og hún er á næsta ári en við þekkjum það báðir að á þessari stundum er ekki hægt að slá neinu föstu um það hvernig tekjuspáin verður fyrir næsta ár þegar við erum farin að tala um 5 eða 10 millj. kr. til eða frá. Það eru engar forsendur til þess á þessari stundu.