Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:32:14 (5627)

1998-04-21 15:32:14# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. greinargerð hans og skýringar. Ég vissi auðvitað fyrir að hann er drengur góður og hann segir auðvitað satt og rétt frá því hvernig þessi mál gengu fyrir sig. Hann skýrir auðvitað hvernig nefndin lítur á að nálgast eigi vandann, sem er stór eða lítill eftir því hvernig á það er litið, en er engu að síður upp á 70 millj. kr. á áætlunartímabilinu og það er auðvitað umtalsverð fjárhæð. Hann hefur staðfest það hér og nú að miðað við þær forsendur sem við byggjum nú á verði sá vandi leystur á yfirstandandi ári í fjáraukalögum og á næstu þremur árum í fjárlögum með hækkuðum framlögum. Ég er þá að tala um miðað við þær forsendur sem eru núna. Við getum auðvitað ekki talað út frá neinum öðrum forsendum. Það getur vel verið að tekjurnar reynist meiri, tekjurnar reynist minni og útgjöldin reynist hærri af einhverjum óhjákvæmilegum ástæðum. Það er málefni morgundagsins. Nú erum við að fjalla um það sem liggur á borðinu.

Auðvitað er það fagnaðarefni að hv. form. samgn., samflokksmaður hæstv. samgrh., hefur gert bragarbót, hefur talað í orðastað ráðherrans og gert alveg skýrt hver vilji hans er. Ég vænti þess auðvitað að hann gangi eftir við fjárlagagerð á hausti komanda þó að hæstv. samgrh. hafi verið á flótta og hlaupið undan með útúrsnúningum og kjánagangi. Það er vandamál hans. Málið er skýrt í huga mínum.