Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:41:48 (5629)

1998-04-21 15:41:48# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að það hefði margsinnis komið fram á hinu háa Alþingi að samgrn. og Flugmálastjórn hefðu mikinn áhuga á því að fara í framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll. Eins og staðan er núna liggur fyrir að skipulagsstjóri hefur bréflega skýrt flugmálastjóra frá afstöðu borgarstjóra. Bréfi borgarstjóra hefur flugmálastjóri svarað, þar var lögð til nokkur orðalagsbreyting og er við því að búast að samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar og Flugmálastjórnar geti hist mjög bráðlega. Ég vonast til þess að þá verði hægt að ganga frá deiliskipulagi flugvallarins.

Það liggur á hinn bóginn alveg ljóst fyrir að ekki er hægt að ganga frá hönnun nýs flugvallar eða endurbóta á flugvellinum, útboðsgögnum og öðru slíku fyrr en deiliskipulagið liggur fyrir og er fullfrágengið. Eins og sakir standa hljótum við að stefna að því hægt verði nú á hausti komanda eða í byrjun næsta árs að bjóða verkið út og ganga frá fjáröflun vegna verksins.

En ég er alveg sammála hv. þm. um að auðvitað hefði verið miklu betra að ljúka við endurbætur á Reykjavíkurflugvelli miklu fyrr. Við verðum líka að horfast í augu við það að úttekt á verkinu hafði ekki farið fram. Hér er um mjög viðkvæmt svæði að ræða umhverfislega. Þess vegna var nauðsynlegt að ákveðnar rannsóknir færu fram og til þeirra yrði vandað, á náttúrufari og öðru því líku áður en til verksins yrði gengið. Því miður hefur undirbúningurinn ekki gengið hraðar en þetta og þar er ekki hægt að segja að við í samgrn. eigumst einir við þegar að þeim þætti kemur.