Loftferðir

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 16:42:45 (5638)

1998-04-21 16:42:45# 122. lþ. 108.5 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[16:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að Alþingi og alþm. geri sér grein fyrir því hvað þær lagabreytingar sem þingið er að samþykkja fela í sér og á hvað þær eru að opna. Ég veit ekki hvort hæstv. samgrh. ætlar að blanda sér í umræðuna og skýra okkur frá því hvað það er sem fyrir honum vakir. Reyndar veit ég ekki hvað væri hægt að treysta slíku. Það hefur sýnt sig áður í öðru máli og ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni áðan að þær yfirlýsingar sem ráðherrann gaf á sínum tíma um Póst og síma, einkavæðingu og sölu hugsanlega á Pósti og síma, reyndust ekki réttar, en fróðlegt væri að vita hvort hann ætli að láta svo lítið að skýra Alþingi frá því hvað fyrir honum vakir. Svo er það náttúrlega þingmanna og þjóðarinnar að gera upp við sig hvað menn leggja upp úr slíkum yfirlýsingum frá slíkum hæstv. ráðherra.