Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 17:48:43 (5641)

1998-04-21 17:48:43# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[17:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur athygli að hjá sumum hv. þm. kemur fram að það frv. sem hér er rætt sé afskaplega merkilegt, jákvætt o.s.frv. en síðan kemur langur listi athugasemda við frv. Ég fer nú að efast um að dómurinn sem menn fella sé réttur ef sá uggur sem hrærist meðal manna um þetta efni er á rökum reistur.

Ég hef þegar talað í þessari umræðu en ég vil taka undir margt sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, sem lagði sérstaka áherslu á að tryggt verði að persónulegar upplýsingar leki ekki út úr þessum gagnagrunni.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að í fjölmiðlum undanfarið hafa verið birtar margar greinar eftir einstaklinga sem ég tel að hafi í öllu falli allt aðrar og betri forsendur til þess að kveða upp úr um þessi efni en sá sem hér talar. Þar vitna ég til greinar Odds Benediktssonar, í Morgunblaðinu 16. apríl, svo dæmi sé tekið, og ég vitna einnig til greinar, þann 17. apríl í DV, eftir Jón Erlendsson, yfirverkfræðing Upplýsingaþjónustu háskólans. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Síðasta útspilið, það er alþekkt lagafrumvarp um öflugan miðlægan gagnabanka, hefur vakið ugg margra um öryggi upplýsinganna og óvissu um eignarrétt. Hver og einn sem fylgist með veit að sé til staðar vilji, ásetningur, tími og geta til að brjóta dulkóða þá er slíkt fyllilega kleift. Sú hugmynd að opna beinlínutengingu að gögnum bankans er mjög varhugaverð. Slíkt gæti opnað tölvuþrjótum, hugsanlega um allan heim, greiða leið að komast í gögnin og hugsanlega að afrita þau í áföngum og ná þannig hugsanlega til sín nánast öllum gagnabankanum.``

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem ég hef handa á milli, virðulegur forseti.