Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 17:51:09 (5642)

1998-04-21 17:51:09# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[17:51]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það að mér þykir þetta frv. mjög jákvætt og merkilegt í alla staði. En ég viðurkenni að í brjósti mínu er ákveðinn uggur, eins og hjá mörgum öðrum, um persónuverndina. Það er kannski ekki óeðlilegt. Þetta er svo stórt og umfangsmikið. Við erum hér að tala um gífurlega miklar upplýsingar og viðkvæmar í miðlægum gagnagrunni. Við búum í litlu samfélagi þannig að við Íslendingar erum sérstaklega vakandi gagnvart persónuverndinni.

Ég man að aðeins fyrir nokkrum árum þegar ég vann á sjúkrahúsi í Reykjavík, þá héngu aðgerðarlistar á veggjum þannig að menn gátu séð hverjir voru að fara í aðgerðir. Þetta lá því miður nánast á glámbekk en þeim reglum hefur síðan verið breytt.

Um upplýsingar frá Oddi Benediktssyni get ég ekki tjáð mig. Ég þekki því miður ekki hvort hægt sé að brjóta dulkóða. Í dag fara ýmsar rannsóknir fram í gegnum dulkóða. Hið sama á þá væntanlega við um allar vísindarannsóknir. Og maður spyr sig: Ef það er fræðilegur möguleiki, með miklum tilkostnaði, að brjóta upp dulkóða, á þá að aflýsa öllum vísindarannsóknum um aldur og ævi af því að sú hætta er fyrir hendi?