Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 17:52:38 (5643)

1998-04-21 17:52:38# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[17:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki gefa neitt endanlegt svar við síðustu spurningu hv. þm. Ég teldi hins vegar skynsamlegt að menn gerðu ráð fyrir því að í flestum tilvikum, ef ekki öllum, sé hægt að komast inn í slíka banka og óvarlegt sé að gera ráð fyrir öðru. Ég tel, t.d. í þessu tilviki, að menn eigi að ræða þetta mál á grundvelli þess að slík leynd gagnist ekki. Hún dugir ekki í reynd. Menn hljóta að verða að ræða þetta miðað við að þetta geti legið opið fyrir. Það er ekki hægt að fullyrða annað.

Ég held að tengsl þessa máls við þjóðréttarlegar skuldbindingar og reglur, t.d. Evrópuráðsins eins og þær liggja fyrir, séu þess eðlis að menn þurfi sannarlega að gaumgæfa það. Ég tel að enginn hafi leyfi til að hleypa aðilum, hverjir sem þeir eru, í upplýsingar um sjúkling, annar en sjúklingurinn sjálfur. Það getur ekki verið spurningin um að heilbrigðisstofnun hafi það á valdi sínu að opna slíkar upplýsingar. Þetta er mál læknis og sjúklings og að lokum sjúklingsins.

Ég spurði hér í umræðu um daginn: Hvað um hina látnu? Hvað um hina látnu og upplýsingar um þá? Hver hefur rétt til þess að fóðra gagnabanka á upplýsingum um hina látnu? Hinir lifandi geta kannski varið sig.