Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 17:56:23 (5645)

1998-04-21 17:56:23# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að taka undir ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Mér fannst þetta góð ræða og einlæg. Ég tek það sérstaklega fram vegna þess að við eigum því ekki að venjast að stjórnarliðar komi hér upp með gagnrýna umfjöllun, um það sem betur má fara eða þarf að skoða, samhliða því að halda á lofti hinu jákvæða í málinu.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er sú að ég hef sett mig á mælendaskrá en það er afmarkaður tími fyrir þessa umræðu og ólíklegt að ég komist að. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á alla þá þætti sem ég hafði merkt við.

Ég vil þó leyfa mér að nefna, virðulegi forseti, þar sem hún benti á að heilbrrh. ætti að veita leyfi til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrám og af því að sá þingmaður sem á undan mér talaði benti á að það þyrfti samþykki viðkomandi heilbrigðisstofnunar, að þar segir jafnframt: ,,eða heilbrigðisstarfsmanns``. Ég vek athygli á því að það er frekar lítil þátttaka að eingöngu heilbrigðisstarfsmaður eigi að samþykkja heimild heilbrrh.

Virðulegi forseti. Ég efast um að nægilegt sé að efla tölvunefndina. Ég tek undir það að ættarsögur okkar í sjúkdómum gera rannsóknarmöguleika á Íslandi mjög mikla og það er ekki hægt að líta fram hjá því. Að því leyti er þetta mál mjög athyglisvert og jákvætt ef við getum lagt okkar af mörkum til að leysa vandamál með erfðarannsóknum.

Virðulegi forseti, það eru þrír nefndadagar eftir. Við erum að mæla fyrir þessu máli við 1. umr. Ég vona að ráðherra endurtaki að hún leggi þetta mál í hendur þingsins og ekki verði ruðst með málið í gegn á skömmum tíma.