Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 17:59:01 (5646)

1998-04-21 17:59:01# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[17:59]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti eðlilegt að spyrja hér spurninga í ræðu minni og tel ekki að það hafi verið neitt sérstaklega gagnrýnin umfjöllun. Mér fannst þær spurningar allar mjög eðlilegar og eiga rétt á sér. Það má þó vera að sumir túlki það sem gagnrýni að spyrja spurninga.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi læknar þurfi að gefa leyfi til að hægt sé að fara inn í gögn sem þeir búa yfir, til þess að skrá inn í þennan gagnagrunn, þá langar mig að nota þetta tækifæri hérna í andsvarinu og skjóta að spurningu sem mér láðist að spyrja í yfirferð minni.

[18:00]

Í 6. gr. segir að það eigi að vera hægt að krefjast framlags frá leyfishafa, þ.e. Íslenskri erfðagreiningu, ef það er hún sem fær það leyfi sem allir búast við, annars vegar til þess aðila sem bjó yfir upplýsingunum og hins vegar til heilbrigðisyfirvalda. Þá spyr maður: Er meiningin að það eigi t.d. að greiða sjálfstætt starfandi læknum, t.d. úti á stofu, fyrir að þetta fyrirtæki fái aðgang að upplýsingunum? Eiga læknarnir að fá greitt fyrir að veita aðgang að upplýsingum um sjúklinga sína?