Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 18:00:36 (5647)

1998-04-21 18:00:36# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[18:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma nánar inn á það að ég kom með athugasemd til viðbótar við athugasemdir hv. þm. um leyfi heilbrrh. til að veita aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám og öðrum heilsufarsupplýsingum sem eru ekki í gagnagrunninum en verður eflaust sótt eftir og vakin athygli á að það þarf í sumum tilfellum greinilega ekki nema samþykki heilbrigðisstarfsmanns á meðan ég mundi telja mjög eðlilegt í mörgum tilfellum að það þurfi samþykki viðkomandi einstaklings. Ég hef sjálf spurt að því hver á sýnin úr mér. Er það ég? Er það læknir sem tekur þau eða stofnunin sem ég er stödd á? Við þessu er kannski ekki komið svar enn þá. Það svar verðum við að finna í vinnslu við þetta frv.

Að öðru leyti tek ég sérstaklega fram að á sama tíma og mér finnst þetta mál athyglisvert og tel að við séum skyldug til að skoða hvernig við getum lagt fram framlag til rannsóknarstarfa þá ber okkur að fara afar gætilega með persónuupplýsingar og fyrir mér er það brýnasta málið í frv.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu til að tefja ekki störf þingsins umfram það sem mér er ætlað í andsvari en ég vona að þingmaðurinn hafi skilið það að ég var að gefa henni talsvert mikið hól fyrir ræðu hennar.