Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 18:21:02 (5654)

1998-04-21 18:21:02# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[18:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þann 13. mars 1998 birtist grein í þýska tímaritinu CASH undir fyrirsögninni: Ísland lokkar vísindamenn. Þar kemur fram að Hoffmann-La Roche lyfjafyrirtækið leggi fram 300 millj. dollara fyrir einkarétt á að leita sjúkdóma meðal hinna einsleitu íbúa Íslands og að markaðseinokun gagnagrunnsins sé innifalin í verðinu.

Þar er sagt frá því að bylting sé að verða í lyfjaheiminum, að fyrirtæki séu að hætta að notast við lögmálið ,,að prófa og skjátlast`` við lyfjaframleiðslu og þau vilji fara í meiri grunnrannsóknir þar sem leitað er eftir upplýsingum bæði frá erfðum og umhverfi. Þær séu samtengdar og með slíkum rannsóknum komi færri og betri lyf á markaðinn sem henti fólki með mismunandi erfðauppbyggingu sem búi við mismunandi aðstæður. Í þessu skyni hafi Hoffmann-La Roche gert stærsta viðskiptasamning sem gerður hafi verið um erfðarannsóknir við Íslenska erfðagreiningu. Íslensk erfðagreining verði að fá stuðning ríkisstjórnarinnar ef hún eigi að ná þessu markmiði og eigi íslenska þingið jafnvel strax í vor eftir að samþykkja lög sem veiti Íslenskri erfðagreiningu einkarétt til að markaðssetja hin erfðafræðilegu gögn. Einnig eigi að banna útflutning á íslenskum blóðprufum og erfðaefni. Þetta sé allt saman óhjákvæmilegt því að það sé svo dýrt að búa til svona gagnabanka og lyfjafyrirtækin greiði aðeins hátt verð ef þau sitja ein að upplýsingunum. Kári Stefánsson er nefndur á nafn í þessari grein og sagt er frá því að hann muni því ákveða hver fái aðgang, hvenær og hvernig, að einstökum gögnum. Þá segir frá því í þessari grein að vísindamenn gagnrýni þessa markaðseinokun á upplýsingum sem stangist algjörlega á við alla frjálsa iðkun vísindarannsókna og grundvallarlögmál vísindasamfélagsins þar sem áhersla er á að hægt sé að endurtaka og sannreyna rannsóknir annarra.

Þetta var 13. mars, herra forseti, eða mun fyrr en það frv. sem nú er verið að ræða var lagt fram á Alþingi eftir stormasama kynningu úti í þjóðfélaginu, sem er auðvitað mikil lítilsvirðing við þingið eins og áður hefur komið fram í umræðunni.

Þetta frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði er stórmál sem verður að fá víðtæka umfjöllun í samfélaginu því að auk þess að snerta þróun vísinda m.a. og möguleika til að stórefla atvinnumöguleika fólks á Íslandi, þá snertir málið starfsumhverfi fjölmargra vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks. Og síðast en ekki síst varðar þetta viðkvæmar persónulegar upplýsingar um alla notendur heilbrigðiskerfisins, nær alla landsmenn.

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég kom með opnum huga að þessu máli en nú tel ég engum vafa undirorpið að mun fleiri rök mæla með því en móti að málið fari eingöngu til kynningar nú í vor og fái mikla umræðu í sumar og komi aftur í þingið vonandi í breyttu formi í haust. Ég vil sem sagt sjá að mál af þessu tagi fari hér í gegn, en ég tel að það sé mjög margt athugavert við þetta frv. eins og það er nú.

Þá vil ég taka undir fram komna gagnrýni um að forkastanlegt sé hvernig þetta frv. var unnið, þ.e. það virðist hafa verið unnið í ráðuneytinu eftir uppskrift eins helsta hagsmunaaðilans í málinu. Þetta fullyrði ég eftir þeim upplýsingum sem ég hef heyrt og fram hefur komið hjá ráðherra, þ.e. að það hafi verið samið í ráðuneytinu. En ekki kemur fram, eins og oft gerir með stjórnarfrv., hvernig aðdragandi málsins var eða hverjir sömdu það.

Nauðsynlegt hefði verið að mínu mati að fulltrúar frá vísindasiðanefnd, tölvunefnd, læknum og fleiri heilbrigðisstéttum og frá vísindasamfélaginu, t.d. Rannís hefðu komið að samningu frv. af þessu tagi. Á málinu eru mjög margir fletir en þetta hefur verið matreitt þannig í þjóðina, og það kom einnig fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ákveðinn aðili geti búið til gagnagrunn á heilbrigðissviði með dulkóðuðum upplýsingum þannig að engin hætta sé á að persónulegar upplýsingar fari til rangra aðila. Þetta eigi að nýtast vel í heilbrigðiskerfinu, bæði fyrir verðandi þjónustu og rannsóknir, og Íslendingar eigi að fá frí lyf frá þeim lyfjafyrirtækjum sem njóta þessa gagnagrunns í sinni lyfjaþróun. En þar sem stjórnvöld hafi ekki efni á að búa til svona gagnagrunn þá verði að veita einkaleyfi til eins starfsaðila í tólf ár og hann hafi einkaleyfi til aðgangs á tilteknum heilsufarsupplýsingum. Þetta einkaleyfi er talið nauðsynlegt til að hann geti fjármagnað fyrirtækið, þ.e. lyfjafyrirtækin vilja ekki greiða uppsett verð nema þau fái einkaleyfi.

Talað er um að það kosti 12 milljarða að búa til slíkan gagnagrunn og fyrirtækið Hoffmann-La Roche virðist samkvæmt tiltækum upplýsingum vera tilbúið að greiða uppsett verð. Á meðan eiga heilbrigðisyfirvöld að geta nýtt sér grunninn og vísindamenn eiga að geta nýtt sér hann til vísindarannsókna svo framarlega sem þeir selja ekki upplýsingarnar til fyrirtækja, skilst mér, og hins vegar verða þeir að fá leyfi hjá starfsleyfishafanum, þ.e. þeim sem hefur einkaleyfið.

Herra forseti. Þetta mál er mjög athyglisvert, ekki síst hvernig virðist hafa tekist að sannfæra þjóðina um að hér sé alfarið um gott mál að ræða. Málið er að mörgu leyti gott en það eru einnig lausir endar á því sem verður að laga. Hugmyndin um samræmdan heilbrigðisgagnagrunn er í sjálfu sér ekki mjög frumleg heldur hitt að láta sér detta í hug að heimild fáist til þess að búa hann til og að selja upplýsingarnar til iðnþróunar eða lyfjaþróunar erlendis því að mörgu leyti stangast þetta á við viðteknar venjur í vísindarannsóknum.

Öllum sem hafa kynnt sér málið er ljóst að heildstæður gagnagrunnur um erfðafræðilega einsleita þjóð eins og Íslendinga, sem býr við tiltölulega þróað heilbrigðiskerfi þar sem ættfræðiþekking er góð, hlýtur að vera fjársjóður sem nýta má til vísindarannsókna, vísindum og þekkingu til framdráttar. Um það efast enginn, hvort sem það er á sviði erfðafræði, læknisfræði, lyfjafræði eða á heilbrigðissviði yfirleitt. Um þetta er ekki deilt.

[18:30]

Deiluefnið er hvort þetta sé forsvaranlegt eða óhætt með tilliti til verndar persónuupplýsinga og ekki síður hvort sú leið sem hér er valin, ekki síst veiting einkaleyfisins til starfsleyfishafans, er réttlætanleg eða skynsamleg. Bent hefur verið á að þau verðmæti sem hér eru í húfi séu gífurleg. Hér er lagt til að einn starfsleyfishafi fái rétt til að einoka þessi verðmæti í tólf ár.

Þessu hefur verið líkt við það að einn útgerðarmaður, sannkallaður sægreifi, fengi allan fiskveiðikvótann í tólf ár. Þessi samlíking við fiskinn í sjónum gengur eingöngu upp ef auðlindin er takmörkuð, þ.e. ef einkaleyfi er veitt á notkun í ákveðnum tilgangi. Ef frjáls aðgangur væri í gögnin öllum sem þættu þau eftirsóknarverð, t.d. lyfjafyrirtækjum, þá væru þau minna virði á sama hátt og kvótinn í sjónum væri lítils virði ef auðlindin væru ótakmörkuð og allir gætu veitt að vild, umfram eftirspurn.

Það að upplýsingarnar eru samtengdar og möguleikinn á að veita einkaleyfi á þeim, skapar verðmætin. Um leið skapar einkaleyfið veruleg vandamál fyrir vísindin og brýtur prinsipp vísindarannsókna. Þess vegna m.a. er þetta siðfræðilega mjög erfitt mál. Það er eitt að reyna að græða á þessu og að rannsóknum í heilbrigðisvísindum fleygi fram en annað og verra að brjóta mikilvæg prinsipp vísindarannsókna.

Herra forseti. Mig langar að koma hér nánar að nokkrum atriðum sem ég tel mjög varasöm í sambandi við þetta frv.

(Forseti (GÁS): Forseti vill rétt aðeins minna á að samkomulag var um að þessari umræðu lyki um sjöleytið og í hana færi einn og hálfur tími. Nú eru fimm hv. þm. eru á mælendaskrá að lokinni ræðu hv. 19. þm. Reykv. og ég vildi biðja hv. þm. að gefa því gaum í ræðu sinni.)

Ég hafði gert ráð fyrir því, herra forseti, að ég fengi 20 mínútur en ég skal reyna að stytta mál mitt eins og ég mögulega get. Hér hefur verið mikið um andsvör. Ég hef verið á mælendaskrá frá því í síðustu viku og get ekki gert að því þó að tímanum hafi verið eytt öðruvísi. Ég ætla þó að stytta mál mitt.

Það sem ég tel að verulega þurfi að laga varðar í fyrsta lagi persónuupplýsingar. Ég vil vísa í umfjöllun prófessors Odds Benediktssonar, sem m.a. hefur verið birt í Morgunblaðinu, þar sem hann fullyrðir að veruleg hætta sé á að þessi grunnur verði misnotaður og tryggja þurfi alla enda í þeim efnum. Fyrir mér er ljóst að einstaklingar, sem margir hverjir eru mjög tortryggnir, hljóta að hafa rétt á að taka allar upplýsingar um sjálfan sig úr slíkum grunni. Á frv. er þó ekki að skilja að það sé ætlunin. Þar er talað um að væntanlega verði grunnurinn í eigu ríkisins eða þeirra sem hafa búið hann til og upplýsingarnar séu ekki í eigu þeirra einstaklinga sem um ræðir.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á kostnaðinum við grunninn. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að um sé að ræða 12 milljarða kostnað. Ég hef heyrt að hægt sé að búa til svona grunn fyrir einn til tvo milljarða og talan 20 milljarðar hefur líka komið upp, m.a. hjá Oddi Benediktssyni, þ.e. að gögnin séu þess virði. Það er því mjög óljóst, ef maður fer að velta því fyrir sér hvers virði grunnurinn er, fyrir hvaða upphæð eigi að veita starfsleyfið. Ég tel að það þurfi að fara mun betur ofan í upplýsingarnar um kostnað við gerð grunns af þessu tagi.

Í þriðja lagi vil ég benda á vandann við beinlínutenginguna sem fram kemur í 8. gr. og er allt að því í mótsögn við 9. gr. þar sem bannað er að þessi grunnur verði erlendis. Í raun og veru ætti að vera mjög auðvelt að afrita allan grunninn. Þannig virðist vera ákveðin mótsögn á milli 8. og 9. gr.

Ég vil einnig benda á að í 11. gr. finnst mér mjög ótrúverðugt hvernig koma á fyrir eftirliti. Talað er um að heilbrrh. megi heimila tölvunefnd og vísindasiðanefnd að taka að sér eftirlit en það er ekki skylda. Ég get því ekki séð annað en að hugsanlega geti þetta orðið algjörlega eftirlitslaust. Það þarf að skýra mun betur hvaða eftirlit eigi að vera með framkvæmdinni.

Síðast en ekki síst, herra forseti, vil ég segja að það að veita einkaaðila þetta vald til framsals, bæði til að hafa starfsleyfið og framselja upplýsingar, er mjög vafasamt og engin furða að vísindasamfélagið mótmæli. Ein hliðaráhrif þessa eru t.d. þau að lyfjafyrirtæki, sem nú styðja vísindarannsóknir fjölmargra vísindamanna, mundu hætta slíkum stuðningi því að bestu gögnin yrðu einfaldlega í höndum eins aðila, sem gæti síðan eftirlitslaust halað inn tekjur í skjóli einkaleyfis síns.

Ég reyni að stytta mál mitt, herra forseti. Ég sé ekki hvernig heilbrrn. getur hyglað einu fyrirtæki umfram annað eða á hvaða forsendum, þegar kemur að veitingu leyfis skv. 5. gr. Ef fleiri fyrirtæki en Íslensk erfðagreining mundu sækjast eftir leyfi samkvæmt 5. gr., og báðir uppfylla sett skilyrði, hver yrði þá valinn og á hvaða forsendum? Í 6. gr. er rætt um gjald, sem heilbrrh. getur ákveðið fyrir leyfi skv. 5. gr. en ekkert kemur fram um hve hátt það eigi að vera né hvaða viðmið eigi að nota. Mundi t.d. sá sem byði hærra gjald fyrir einkaleyfið fá það ef hann uppfyllti skilyrðin að öðru leyti? Á þetta að vera einhvers konar málamiðlunargjald eða er það hugsað sem tekjustofn fyrir heilbrigðiskerfið og ríkissjóð? Þetta kann að hljóma undarlega, herra forseti, en mér sýnist að þau réttindi sem einkaleyfishafinn fær séu það mikil að ekki sé ólíklegt að margir sæki um.

Ég fer að ljúka máli mínu, herra forseti, en í DV í dag er vitnað í þá afstöðu sjálfstæðismanna að það liggi á að samþykkja þetta frv. vegna þess að milljarðar kr. séu í hættu. Ég vil ítreka, herra forseti, að ekkert af því sem Íslensk erfðagreining eða íslenska þjóðin hefur upp á að bjóða í þessum efnum, hverfur eða missir marks þó að beðið sé til næsta hausts. Þjóðin verður áfram einsleit og upplýsingar um heilsufar hennar og ættfræði eru jafnverðmætar og áður. Það eru einnig mjög litlar líkur á því að nokkur önnur þjóð skapi grunn af þessu tagi á þeim tíma.

Frestun fram á haust gerði fólki kleift að átta sig betur á því hvort það kostar einn, tvo eða 20 milljarða að búa til öruggan gagnagrunn af þessu tagi. Hægt væri að kanna hvernig best megi tryggja að persónuupplýsingar verði ekki misnotaðar af skúrkum í vondum tilgangi, t.d. af tryggingafyrirtækjum. Eins væri hægt að finna með hvaða hætti gagnagrunnurinn nýtist sem best íslenskum stjórnvöldum, t.d. til að bæta heilbrigðiskerfið, í þágu vísindarannsókna, sem atvinnuvettvangur fyrir háskólamenntað fólk eða sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð en ekki fyrir einn lénsherra eða einkaaðila eins og hér er lagt til.

Umræður undanfarna daga í fjölmiðlum, á ráðstefnum, fundum og í einkasamtölum hafa sannfært mig um að þetta mál verði að fá mun víðtækari umfjöllun í samfélaginu. Um það verður að nást sátt svo allir geti lagt sitt af mörkum til að hámarka gæðin á þeim gagnagrunni sem vonandi verður til hagsbóta fyrir sem allra flesta, sjúklinga jafnt sem heilbrigðiskerfið, vísindamenn og framþróun vísindanna.

Best væri ef fjárhagslegur ávinningur skilaði sér til almennings svo framarlega sem almenningur sættir sig við að svona upplýsingar séu notaðar í gróðaskyni. Ef það verður prinsippið, sem vissulega er umdeilanlegt og krefst siðfræðilegrar umræðu, þá tel ég að gróðinn eigi að fara til sem flestra, til vísindarannsókna, til háskóla eða til heilbrigðiskerfis en ekki til einkaaðila. Hægt væri að (Forseti hringir.) útfæra slíka lausn þannig að margir aðilar mundu bjóða í leyfin og fá einkaleyfi varðandi einstaka sjúkdóma. Þannig gæfi þetta meira af sér og væri mun tryggara.

(Forseti (GÁS): Tíminn er búinn.)

Herra forseti, að lokum ein spurning til ráðherra.

(Forseti (GÁS): Tíminn er búinn).