Lyfjalög

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:33:54 (5667)

1998-04-21 19:33:54# 122. lþ. 108.16 fundur 652. mál: #A lyfjalög# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði hvort verið væri að setja stóra stofnun á laggirnar. Svo er ekki. Hér er verið að slá saman tveimur apparötum sem vinna nú þegar vel saman í dag. Þetta er auðvitað stórt og ábúðarmikið nafn, Lyfjamálastofnun Íslands, og gott að ég tel. Hann spurði hvort þetta væri einungis eftirlitsstofnun. Þetta er fyrst og fremst fagleg stofnun eins og lyfjanefnd og Lyfjaeftirlitið hefur unnið en hefur auðvitað líka eftirlitshlutverki að gegna.

Hv. þm. spurði að því hvort lyfjanefnd og Lyfjaeftirlit hafi verið á móti einhverjum atriðum frv. vegna þess að það stendur í greinargerð að tillögurnar komi að hluta til frá þeim. Þá kannast ég ekki við neinn ágreining en eins og fram kom áðan erum við í leiðinni að fela Lyfjamálastofnun Íslands, ef af verður, aukið hlutverk. Það kom fram í framsögu áðan hvaða hlutverki þessi nýja stofnun á að gegna.