Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:58:06 (5675)

1998-04-21 19:58:06# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að allar þær breytingar eða flestar sem gerðar eru að tillögu hv. menntmn. eru til bóta. Ég tel að það sé hið besta mál að íslensk málnefnd skuli nú fá áheyrnarfulltrúa í örnefnanefnd sem getur bæði gert tillögur og rætt þær tillögur sem uppi eru. Langmikilvægasta breytingin á frv. er þó sú að í hinni upphaflegu gerð var gert ráð fyrir því að úrskurðir nefndarinnar væru endanlegir á stjórnsýslusviði og að örnefnanefndin færi alfarið með ákvörðunarvald. Nú er því breytt og samkvæmt tillögu nefndarinnar fjallar örnefnanefnd um nöfn en hægt er að skjóta úrskurðum nefndarinnar til ráðherra. Það er í samræmi við þau stjórnsýslulög sem sett hafa verið og skiptir auðvitað máli að þannig sé hægt að hnekkja úrskurði nefndar á því stjórnsýslustigi.

Ég kom hérna áðan, herra forseti, og ræddi eitt tiltekið mál. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur að það er misskilningur hjá mér að nefndin hafi kvatt sérstaklega til fulltrúa umhvrn. og fulltrúa Landmælinga Íslands varðandi þann þáttinn sem snýr að úrskurðarvaldi örnefnanefndarinnar. Það samráð var haft við gerð frv. En þeim mun heldur stingur það í augu að ekki skuli hafa verið fenginn fulltrúi frá Landmælingum Íslands til þess að reifa málið við nefndina. Þetta er sú stofnun sem er langviðamest í útgáfu landabréfa og líkast til er obbi þeirra landabréfa sem gefinn er út utan stofnunarinnar gefinn út með einhvers konar leyfi af hennar hálfu.

[20:00]

Það er eigi að síður þannig að ég er ekki viss um nema vaxandi fjöldi landabréfa sé gefinn út á vegum einkaaðila og ekki endilega með leyfi Landmælinga Íslands. Ég minnist þess að deilur hafa verið um það í fjölmiðlum að eitt tiltekið fyrirtæki norðan lands gaf út kort og Landmælingum Íslands var meinilla við það, kannski vegna þess að viðkomandi fyrirtæki nýtti grunn Landmælinga án þess að hafa tilskilin leyfi. Mér er það ekki alveg ljóst. Það skiptir heldur ekki meginmáli varðandi það atriði sem ég er hér að vekja máls á.

Hitt veit ég að það er auðvitað fjöldi stofnana sem gefur út kort eins og Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun, Sjómælingar Íslands, Náttúruverndarráð, Námsgagnastofnun, Orkustofnun og vísast miklu fleiri opinberar stofnanir. Það hefur líka gerst að einkaaðilar gefi út einhvers konar kort, aðallega gróf kort, og þá skiptir máli að örnefni séu samræmd. Ég bendi sérstaklega á eitt atriði. Það skiptir t.d. máli þegar upp koma einhvers konar slys og fólk þarf að hringja í Neyðarlínuna. Ef slíkt hendir t.d. fólk sem er statt víðs fjarri mannabyggðum og það hefur engin tiltekin kort við höndina önnur en frekar gróf kort sem gefin eru út af einkaaðilum kynni að koma upp einhvers konar misskilningur sem gæti leitt til afar óheppilegra atvika.

Spurningin er þá hvort einhver möguleiki sé á að slík kort séu gefin út. Þá vísa ég til þess, herra forseti, að í þeim lögum sem við samþykktum á síðasta ári um Landmælingar Íslands er það alveg fortakslaust skýrt samkvæmt III. kafla þeirra laga að Landmælingar Íslands hafa ekki einkarétt á útgáfu landabréfa á Íslandi. Ríkið er að vísu eigandi að öllum þeim réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast í gegnum tíðina og stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfundar- og útgáfuréttar og afnotaréttar á öllu því efni sem stofnunin hefur eignast eða unnið sjálf gegnum tíðina.

Það breytir ekki hinu að til eru giska góð kort, eldri kort, ekki eins nákvæm og hin stafrænu kort stofnunarinnar sem eru framleidd í dag en kort eins og til að mynda þau sem voru gerð af danska herforingjaráðinu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hérna áðan voru furðulega nákvæm og voru til skamms tíma einu kortin sem voru til af tilteknum hlutum landsins.

Rök mín hníga sem sagt að því, herra forseti, að það sé vel mögulegt og kunni vel að eiga sér stað nú þegar að gefin séu út kort sem byggjast á efni sem þarf ekki leyfi Landmælinga til. Þá blasir við að samkvæmt þeim lögum sem yrðu sett að frv. og brtt. óbreyttum mundu þeir aðilar vera utan þess úrskurðarvalds sem örnefnanefnd og þá væntanlega hið opinbera hefur. Ég tel, herra forseti, að sá ljóður sé á þessu máli sem er að öðru leyti ágætlega skoðað. Ég tel að orsök þessa sé sú að ekki var kvaddur til fulltrúi þeirrar stofnunar sem er auðvitað langumfangsmest á sviði kortagerðar á Íslandi. Ég tel að fulltrúi Landmælinga hefði átt að koma fyrir nefndina, þá hefði verið bent á þetta. En það var sem sagt ekki gert. Mér hefur hins vegar verið bent á þennan möguleika af starfsmönnum stofnunarinnar og þess vegna kem ég hér upp. Þetta er ekki bara minn meðfæddi eiginleiki til þess að vera með ,,kverúlans`` heldur hefur mér verið bent á það af mönnum sem hafa vit á og ég spyr hv. formann nefndarinnar: Er það ekki mögulegt að þetta verði a.m.k. skoðað á milli 2. og 3. umr.? Ég tek alveg skýrt fram að ég hef engin sérstök dæmi um einhverja aðila sem eru utan við það eignarréttarsvið sem Landmælingar kalla til sem gefa út svona kort í dag. En ég hygg að í mínu máli hafi ég fært næsta góð rök að því að ekkert kemur í veg fyrir að einhverjir taki sér það fyrir hendur og þá ná þessi lög ekki nógu langt. Þá er jafnframt möguleiki, herra forseti, að það kæmi upp í einhverjum örfáum tilvikum misskilningur sem gæti leitt til afar óheppilegra afleiðinga.