1998-04-21 20:24:20# 122. lþ. 108.13 fundur 616. mál: #A samningar um lögsögumál við Danmörku og Grænland annars vegar og við Noreg hins vegar# þál. 8/122, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:24]

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu samninga um lögsögumál við Danmörku og Grænland annars vegar og við Noreg hins vegar.

Nefndin fjallaði um tillöguna og fékk m.a. á sinn fund Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Að auki komu til skrafs og ráðagerða við hana Helgi Ágústsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, Hjálmar W. Hannesson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Tómas H. Heiðar, aðstoðarþjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins.

Með þessum samningum við grannþjóðir Íslendinga er eytt réttaróvissu um afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands annars vegar og hins vegar á tiltölulega litlu hafsvæði þar sem lögsaga Íslands, Grænlands og Jan Mayen skarast.

Utanríkismálanefnd telur mikilvægt að þessir samningar hafi náðst og leggur til einróma að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta ritar fullskipuð nefnd og allir fyrirvaralaust.