Stofnsamningur Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðastofnunarinnar

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 20:30:25 (5686)

1998-04-21 20:30:25# 122. lþ. 108.15 fundur 622. mál: #A stofnsamningur Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðastofnunarinnar# þál. 10/122, Frsm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:30]

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, sem er einn af leiðtogum lífs okkar beggja, ritar undir þetta mál fyrirvaralaust og hún sá ekkert athugavert við þennan ákveðna greini sem hv. þm. fettir alla sína tíu fingur út í í þessu ágæta máli.

Það kemur mér talsvert á óvart að hv. þm. talar eins og honum sé ókunnugt um innihald stofnsamnings Fjölþjóðlegu fjárfestingaábyrgðarstofnunarinnar. Ég furða mig satt að segja á því þar sem ég hef orðið þess áskynja í umræðum í þinginu að hv. þm. hefur geysilega yfirgripsmikla þekkingu á flestum þeim alþjóðlegu stofnunum sem Íslendingar koma að. Nú er það svo að þessi stofnun er ein af fimm stofnunum Alþjóðabankans en sú aleina sem Íslendingar eiga ekki aðild að.

Það kom fram við umræður í nefndinni vegna þess að það voru ekki allir nefndarmenn sem skildu gildi þessa en eftir að hafa skoðað málið og rætt það við hæstv. utanrrh., sem lagði talsverða áherslu á þetta mál, og eftir að hafa hlýtt á rökstuðning ýmissa af starfsmönnum hans, töldu menn að rannsókn málsins lokinni að það væri æskilegt að þingið samþykkti þessa þáltill. og fullgilti þar með stofnsamninginn. Ég vænti þess að ef hv. þm. skoðar nú málið betur og mundi gefa sér tóm til þess að lesa stofnsamninginn væri hann mér sammála um það að þetta þjónar beint hagsmunum Íslands og auk þess líka eins og kemur fram í nefndarálitinu að íslenskir fjárfestar í þróunarlöndunum gætu haft hag af aðildinni og við erum allir í þessu þingi og sér í lagi við þingmenn tveir sem erum eftir í salnum þeirrar skoðunar að það eigi endilega að reyna að koma íslenskum kapítalistum út um allar heimsins grundir og þorp.