Stofnsamningur Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðastofnunarinnar

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 20:32:39 (5687)

1998-04-21 20:32:39# 122. lþ. 108.15 fundur 622. mál: #A stofnsamningur Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðastofnunarinnar# þál. 10/122, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er satt að segja ekki miklu nær og fannst þetta í rauninni ekki mjög burðugur rökstuðningur. Aftur endurtók hv. þm. þau orð að íslenskir kapítalistar gætu hugsanlega haft hag af þessari aðild okkar. Það er auðvitað gott og blessað og kannski getur það þá orðið. En maður hefði vænst fyllri rökstuðnings.

Ég bið síðan hv. þm. að gera mér ekki upp skoðanir. Þó ég komi upp með tvær sárasaklausar athugasemdir eða spurningar er ekki þar með sagt að það sé ávísun á fulla andstöðu við málið. Ég sagði ekkert um afstöðu mína til málsins. Það vill reyndar svo til, hv. þm., að ég kynnti mér lítillega innihald þessa samnings sem er einn af þeim doðröntum sem koma inn á borð okkar þingmanna og örugglega fáir núlifandi menn hafa lesið og sárafáir á Alþingi enda í sjálfu sér kannski ekki til þess ætlast að menn leggist ofan í einstaka greinar samningsins heldur er það fullgildingarákvörðunin sem menn eru að taka.

Ástæðan er sú að ég vildi skoða hvort þarna væri nokkuð það á ferðinni sem tengdist öðru fyrirbæri sem hefur verið á dagskrá í París og er alþjóðlegi fjárfestingarsamningurinn, MAI, sem hefur verið þar á dagskrá og er ræddur leynilega mjög. Svo er ekki og skoðun mín leiddi til þeirrar niðurstöðu að hér væri um hluta af starfsemi Alþjóðabankans að ræða sem tengdist ekki á neinn hátt því brölti innan OECD sem hefur verið þar á dagskrá.

Ég skil vel áhuga hæstv. utanrrh. Út af fyrir sig er kannski eðlilegt að við gerumst aðilar að þessum hluta starfs Alþjóðabankans eins og öðrum en það kynni einnig að tengjast eitthvað því að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson og fúnkerandi varaformaður Sjálfstfl. eða staðgengill forsrh. mun vera í forustu fyrir Norðurlandaþjóðum á þessum vettvangi um þessars mundir ef ég veit rétt og sjálfsagt er það gott upp á rykti hans að leggja til að Íslendingar gerist nú aðilar að þessu apparati. Ég hef ekkert á móti því í sjálfu sér. Ég geri ekki ráð fyrir að það skipti miklu máli til eða frá og mun ekki setja mig upp á móti því en mér hefði fundist gott að hv. starfandi formaður utanrmn. sem er nýr í því starfi og e.t.v. tímabundinn hefði átt glæsilegri framgöngu og rökstutt mál sitt betur.