Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:07:31 (5690)

1998-04-22 13:07:31# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir mikla umræðu um niðurskurð er staðreyndin sú að framlög til FSA hafa verið að aukast á undanförnum árum. Í ráðherratíð minni hafa þau hækkað um 99 millj. kr. eða 8,35% umfram hækkun verðlags og hafa þau aukist meira en til annarra sjúkrahúsa. Með auknum fjárframlögum er viðurkennt að FSA gegnir lykilstöðu í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi og á síðustu árum hafa sjúklingar á suðvesturhorninu í æ ríkari mæli sótt þjónustu til Akureyrar ásamt því að sjúkrahúsið er meira nýtt af Norðlendingum og Austfirðingum eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Sjúkrahúsið hefur lengi verið til fyrirmyndar í rekstri og haldið honum innan ramma fjárlaga en á síðasta ári varð aukning á rekstrarkostnaði sjúkrahússins þannig að halli á rekstri var 56,7 millj. kr. en til rekstrar á því ári voru áætlaðar um 1.279 millj. kr. þannig að hallinn var um 4,4%. Á fjárlögum eru áætlaðar 426 millj. kr. til rekstrar.

Fagnefnd sem hefur fengið það verkefni að úthluta 500 millj. kr. samkvæmt fjárlögum hefur verið að fara ofan í það í samráði við stjórnendur sjúkrahússins hvað hefur valdið þeim auknu útgjöldum sem fram komu á síðasta ári og eru fyrirsjáanleg á þessu ári.

Stjórnendur FSA hafa rökstutt breytingar á kostnaði með aukinni þjónustu og það sama hefur gerst varðandi margar aðrar stofnanir. Fyrir liggja tillögur þeirra með hvaða hætti unnt sé að halda rekstrinum innan ramma fjárlaga.

Virðulegi forseti. Stjórnendur FSA ræddu stöðu sjúkrahússins við mig og tvo hv. þm. kjördæmisins í mars sl. Á þeim fundi kom ekki annað fram en að verið væri að vinna að lausn þessa máls í samvinnu við fagnefnd þá sem vinnur að því að úthluta viðbótarfjármagni til sjúkrahúsanna. Á þeim fundi vorum við sammála um leiðir til lausnar á þeim vanda sem fyrir lá enda framkvæmdastjóri sjúkrahússins einn af nefndarmönnum.

Svo undarlega brá hins vegar við að viku síðar kynnti stjórnarformaður og aðstoðarframkvæmdastjóri sparnaðaraðgerðir fyrir starfsfólki og héldu blaðamannafund þar sem þeir kynntu sérstaklega neyðaráætlun um lokanir og verulegan niðurskurð á þjónustu. Þessi framsetning olli eðlilega ótta og óöryggi meðal starfsfólks og íbúa svæðisins. Það er að mínu mati ábyrgðarhluti að kynna neyðaráætlun þegar verið er að vinna með ráðuneytinu að lausn málsins. Þetta kom ráðuneytinu verulega á óvart eftir það sem á undan var gengið og ekki síst að stjórnendur skyldu velja þá leið að kynna hugsanlegar ráðstafanir í fjölmiðlum áður en þær voru ræddar í ráðuneyti og við fagnefnd. Aðalatriðið er að fagnefndin er að vinna að skiptingu þess fjármagns í samræmi við hlutverk sem henni hefur verið ákveðið við afgreiðslu fjárlaga.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hafa fjárframlög til FSA aukist meira en til annarra á undanförnum árum. Stjórnendur sjúkrahússins hafa haldið vel utan um reksturinn og eru að vinna að lausn rekstrarvanda sjúkrahússins í góðri samvinnu við ráðuneytið og fagnefndina. Það er engin ástæða til að óttast niðurstöðu þeirrar vinnu. Stjórnendur FSA hafa staðið sig vel á undanförnum árum. Stofnunin hefur notið þess í fjárframlögum að hún hefur veitt góða þjónustu og það verður tryggt hér eftir sem hingað til.

Ég tel mig þá nokkurn veginn vera búna að svara þeim fyrirspurnum sem hv. þm. lagði fyrir mig en hann lagði fyrir mig í fyrsta lagi eftirfarandi spurningu: Hefur núverandi ríkisstjórn breytt um stefnu hvað varðar hið mikilvæga þríþætta hlutverk FSA og áframhaldandi uppbyggingu þar í samræmi við það? Svarið við því er nei, enda sýnum við það með fjárframlögum.

Síðan spyr hv. þm. hvenær lokið verði við að skipta úr pottunum samkvæmt fjárlögum og talar þar um seinagang. Um miðjan næsta mánuð liggja tillögur nefndarinnar fyrir.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Verður því sem á vantar til þess að hægt sé að halda á FSA a.m.k. óskertri starfsemi eins og hún er nú eftir umfangsaukningu undanfarinna ára, bætt við sem viðbótarfjárveitingu? Því er til að svara að ljóst er að það verður um viðbótarfjármagn að ræða hvað varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.