Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:19:09 (5694)

1998-04-22 13:19:09# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:19]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með málshefjanda að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er mikilvægasta heilbrigðisstofnunin á landsbyggðinni og því þarf að sjá til þess að þar geti farið fram myndarlegur rekstur, hér eftir sem hingað til. Eins og fram kom í máli hæstv. heilbrrh. hefur fjármagn til fjórðungssjúkrahússins verið aukið í hennar tíð. Engu að síður er nokkur halli á rekstrinum eftir síðasta ár og fjárvöntun á þessu ári. Þessu gera embættistmenn og hæstv. heilbr.- og trmrh. sér grein fyrir og það er verið að vinna að þessum málum.

Þann 17. mars sl. áttum við, ég og hv. þm. Tómas Ingi Olrich, fund með forsvarsmönnum sjúkrahússins og hæstv. heilbr.- og trmrh. Þar var skipst á skoðunum og ég varð ekki vör við annað en að mikill skilningur væri á þessu máli. Heilbr.- og trmrh. hefur fullan skilning á því að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þarf að fá fjármuni úr þeim potti sem verið er að úthluta úr og samkvæmt hennar orðum verður þeirri vinnu lokið um miðjan næsta mánuð.

Á blaðamannafundi sem haldinn var 30. mars var kynnt neyðaráætlun, m.a. vegna þess að fjármunir á fjárlögum ársins í ár eru ekki nægilegir til að reka sjúkrahúsið. Kannski má deila um hvort skilaboð frá heilbr.- og trmrn. gerðu það að verkum að forsvarsmenn sjúkrahússins töldu sig knúna til að gera þá áætlun í samræmi við fjárlög ársins, án tillits til þess að þeir ættu eftir að fá aukið fjármagn. Þessi neyðaráætlun kom okkur því nokkuð á óvart en í þessu máli finnst mér alvarlegast ef starfsfólk sjúkrahússins er áhyggjufullt. Það er fullur vilji til að leysa málin.