Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:24:26 (5696)

1998-04-22 13:24:26# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:24]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil láta tvennt koma fram við þessa umræðu og ég þakka flm. fyrir hans innlegg. Í fyrsta lagi ákvað fjárln. eða meiri hluti hennar að láta starfshóp yfirfara fjárhagsáætlun sjúkrahúsanna og fylgjast með vinnu þess starfshóps. Það hefur nefndin gert og í næstu viku er ætlunin að forsvarsmenn hópsins geri grein fyrir stöðu mála. Að öðru leyti ætla ég ekki að bæta við það sem ráðherra hefur sagt um hvernær niðurstöður liggi fyrir. Varðandi landsbyggðarsjúkrahúsin verður það í næsta mánuði.

Hitt vil ég láta koma skýrt fram varðandi sjúkrahúsið á Akureyri, ég tek undir það sem hefur verið sagt hér um hlutverk þess, að engin ákvörðun hefur verið tekin um það né hefur meiri hluti fjárln. gefið fyrirmæli um að breyta hlutverki sjúkrahússins þótt það væri tekið inn í hóp þeirra sjúkrahúsa sem farið hafa yfir áætlanir. Ljóst er að fjármuni vantar til að halda þeim rekstri óbreyttum sem þar er nú. Ég vona að farsæl niðurstaða fáist um þau mál og það innan tíðar. Ég vildi undirstrika að engin ákvörðun hefur verið tekin um það í fjárln. að breyta hlutverki sjúkrahússins á Akureyri eða draga úr vægi þess.