Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:39:08 (5707)

1998-04-22 14:39:08# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:39]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst allsérstakt að taka þannig til orða að það sé svartur blettur á sveitarstjórnum að ekki séu þar konur eða karlar starfandi. Í þessum tilviki var talað um að ef konu vantaði væri það svartur blettur á sveitarstjórnum. Við vitum, ef við snúum þessu við, að til eru sveitarstjórnir þar sem konur eru í meiri hluta og vafalaust líka sveitarstjórnir þar sem eru bara konur. Ég sé það bara sem mjög eðlilegan hlut að í stjórnirnar veljist eftir því sem kjósendur óska og mér finnst mjög sérstakt þegar verið er að draga í dilka eftir kynferði, litarhætti, gáfnafari eða einhverju slíku, afar sérkennilegt. Eða eftir því hvort menn eru feitir, grannir eða hvað þeir eru. Þó að mörg dæmi sýni að konur eru oft miklu betur til stjórnunarstarfa fallnar en karlar, þá finnst mér mjög sérkennilegt samt að setja eitthvert viðmið, hvort fólk gangi í pilsi eða buxum og hvernig sköpulag fólks sé. Þetta kemur bara málinu ekkert við hvort menn veljast til stjórnmálarstarfa, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er hæfnin og andlegt atgervi sem hlýtur að eiga að ráða. (KH: Er það þess vegna sem þær eru svona fáar í stjórnmálum?) Nei, það er ekki þess vegna. Það er vafalaust af því að þær eru greindari en karlar og skynja að það er ekkert í þessu. Það er ekkert í þessu í stjórnmálastarfi í dag. Þetta er búið spil. Þetta er búinn leikur. Það er ekkert í þessu lengur.