Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:40:46 (5708)

1998-04-22 14:40:46# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, Flm. SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst nú hálferfitt að svara þessu en ég skal reyna.

Þetta með svörtu blettina. Ég lít svo á að það sé svartur blettur þar sem engin kona er í sveitarstjórn. Það er jafnsvartur blettur ef enginn karl væri í sveitarstjórn. Mér finnst eðlilegt að sæmilegt hlutfall beggja kynja sé í sveitarstjórnum.

Ég vil líka benda hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni á að Framsfl. hefur samþykkt jafnréttisáætlun. Hún var samþykkt á flokksþingi með öllum greiddum atkvæðum og alger samstaða var um hana. Í þeirri áætlun er sérstaklega tiltekið að Framsfl. stefni að því að hlutfall beggja kynja verði ekki minna en 40% um aldamót í starfi flokksins. Ég bara spyr hv. þm.: Er hann ósammála þeirri stefnu Framsfl.?

Varðandi þau orð sem féllu um hæfni og andlegt atgervi, að það ætti að ráða. Það er svo sannarlega rétt. Auðvitað á hæfni og andlegt atgervi að ráða. En þá spyr ég: Af hverju er hlutfall kvenna á Alþingi einungis 25%? Af hverju er það? Hafa þær svona litla hæfni og lítið andlegt atgervi? Hvernig sér hv. þm. að hægt sé að koma jafnréttinu á hér? Það hlýtur að vera jafnrétti að auka hlut kvenna. Þetta gengur ekkert út á annað.