Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:42:26 (5709)

1998-04-22 14:42:26# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:42]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ef það hefur ekki skilist áðan, þá er ég á móti því að draga fólk í dilka eftir kynferði. Mér finnst það alveg jafnvitlaust þó að það hafi verið samþykkt í þingflokki okkar framsóknarmanna að draga fólk í dilka. Ég bara vil ekki draga fólk í dilka eftir kynferði. Það er svo einfalt.

Spurt er: Af hverju eru konur ekki fleiri á þingi? Því geta þær auðvitað best svarað sjálfar. Ég held að það ráðist ekki af því að þær séu, eins og mér fannst hljóma í spurningunni, síður til þess fallnar að vera í stjórnmálastörfum, síður en svo. Það hlýtur bara að vera þannig að áherslur þeirra séu aðrar. Það hlýtur að vera. Á mjög mörgum sviðum og kannski flestum skara þær fram úr körlum. En það hefur hins vegar ekki nokkur karl mér vitanlega reynt að stöðva það að konur tækju þátt í stjórnmálum nema þá þeir sem eru í baráttu um sæti. Eðli málsins samkvæmt þá berst fólk náttúrlega, karlar og konur. En ég kannast ekki við að nokkur starfsemi karla sé í gangi til að hefta það að konur taki þátt í stjórnmálum. Mér finnst bara firnavitlaust að stilla þessu þannig upp. Konur hljóta auðvitað að svara því sjálfar af hverju þær eru ekki fleiri í stjórnmálum. Það getur enginn annar svarað því fyrir þær. En þær eru velkomnar, finnst mér, og ég vil stuðla að því að greint fólk eigi erindi inn í stjórnmál, alveg sama hvort það eru karlar eða konur, hvort þær eru svartar eða hvítar, gular eða rauðar, alveg sama. Ef þetta fólk hefur andlegt atgervi til að sinna þessum störfum, þá á það að gefa sig að því vegna þess að það er þjóðfélaginu til góðs.