Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:19:14 (5717)

1998-04-22 15:19:14# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, KH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:19]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get nú ekki orða bundist þótt margt ágætt hafi komið fram í þessari umræðu sem styður efni þessarar tillögu sem ég er meðflutningsmaður að eins og flestir sem hafa talað hér. Það kviknar í manni við þessar umræður. Við getum litið aftur um fimmtán ár og skoðað hvernig ástandið var þá. Það hefur auðvitað breyst síðan. En þá var staðan þannig að aldrei höfðu verið meira en 5% þingmanna kvenkyns, aldrei, árið 1983. Og það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera og það var þá sem konur blésu til sóknar og ákváðu að gera eitthvað róttækt í málunum og það er væntanlega kominn tími til þess aftur nú vegna þess að það er ákveðin stöðnun. Fjölgun kvenna er svo lítil í hverjum kosningum öðrum núna að greinilegt er að eitthvað þarf að gera og þess vegna er ástæða til að koma fram með svona tillögu og fylgja henni eftir. Ég styð hana að sjálfsögðu heils hugar. Hún er mjög í samræmi við þá umræðu sem ég hlýddi á þegar mér gafst kostur á að sækja aukaþing Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldið var fyrir rúmi ári á Indlandi sem var mjög áhugaverð og skemmtileg ráðstefna. Það var mikil reynsla að hlusta á þingmenn hvaðanæva að úr heiminum ræða það eitt í heila fjóra daga hvernig ætti að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þar vafðist ekki fyrir mönnun hvort það ætti að gera, heldur bara hvernig. Þar komu fram margar hugmyndir eins og sú sem hér er raunverulega fram borin um að efnt verði til sérstækra aðgerða og varið fé til þess.

Fyrir fimmtán árum voru áreiðanlega margar konur og e.t.v. karlar líka sem hugsuðu sem svo: ,,Hvers vegna eru ekki fleiri konur í stjórnmálum?`` Og þá var sagt eins og hér var sagt áðan að konur væru velkomnar í stjórnmálin, velkomnar inn í flokkana, en af einhverjum ástæðum voru þær ekki vel virkar þar. Auðvitað spurðu ýmsar konur kannski sjálfar sig: ,,Hvað er að okkur?`` Konur leita alltaf að sökinni hjá sjálfum sér og spyrja: Hvað er að okkur? Eru konur ekki nógu góðar? Eru þær ekki nógu greindar. Eru þær ekki nógu ábyrgðarfullar, hugmyndaríkar og hvað þetta allt er? Vilja þær ekki axla ábyrgð eða eru þær einfaldlega ekki nógu klárar? (KPál: Þær hafa bara ekki viljann.) Og þá kallar hv. þm. Kristján Pálsson fram í og segir: Þær hafa bara ekki viljað. Af einhverjum ástæðum var og er fullt af konum sem óska svo sannarlega að leggja sitt af mörkum til stjórnmála sem og annarra þátta í þjóðfélaginu en staðreyndirnar töluðu sínu máli. Það var þá sem konur tóku sig saman og ákváðu að skoða málið frá hinni hliðinni. Kannski er nú bara ekkert að konum. Það gæti nú verið að það væri eitthvað að kerfinu sjálfu, að þeim aðstæðum sem konum eru búnar og að þeim starfsreglum og þeirri pólitík sem rekin er í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum. Þess vegna komu konur saman og ákváðu að skapa vettvang sem væri kvenvinsamlegri en hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir óneitanlega eru. Það varð grunnurinn að Kvennalistanum og hann hefur svo sannarlega sannað það að ástæða var til að reyna að breyta hlutunum, breyta umræðunni og skapa vettvang þar sem konur fyndu sig heima. En að sjálfsögðu var síðan alltaf meiningin að þegar fram í sækti væri hægt að skapa og mynda leiðir á milli karla og kvenna þar sem þau gætu mæst á jafnréttisgrundvelli með virðingu hvert fyrir annars skoðunum, hugsjónum, hugmyndum og starfsaðferðum og þar fram eftir götum. Ég held að það sé mjög brýnt að taka þessa umræðu aftur núna og reyna að skapa betri aðstæður til að tryggja aukið jafnræði kvenna og karla í stjórnmálum. Það var mjög athyglisvert að hlusta á t.d. hv. þingmenn af karlkyni sem hafa tekið þátt í þessum umræðum. Ég undanskil hv. 2. þm. Vestf. en mér fannst býsna íhaldssöm viðhorf koma fram í máli hans áðan og hefði nú verið gaman að heyra frekar frá honum í heilli ræðu þar sem hann viðraði viðhorf sín og skilning á aðstæðum kvenna til að taka þátt í stjórnmálum.

Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í umræðunni í dag að það skiptir líka mjög miklu máli að bæta starfsumhverfið, skapa betra starfsumhverfi því mér er það mjög í minni þegar ég kom fyrst inn á þing að strax á fyrsta þingvetrinum rann upp fyrir mér hversu fólki er hér boðið fráleitt starfsumhverfi, t.d. í sambandi við fundatíma og annað. Hér var minnt á að fundir yrðu allan næsta laugardag og ég sat sjálf á fundi allan síðasta laugardag. Þetta er auðvitað ekki til að hvetja, sérstaklega ungt fólk með börn, til að taka þátt í þessum störfum og það er miður. Á mínum fyrsta þingvetri leyfði ég mér einhvern tímann í hópi þingflokksformanna að kvarta yfir því að eftir því sem annríki jókst væri farið að setja fundi á alla mögulega og ómögulega tíma. Hver matartíminn af öðrum hvarf í þessa fundahít. Ég gerði athugasemd við þetta og sagðist vilja hádegið hreint svo hægt væri að skjótast heim. Ég var svo vel sett þá, betur sett en margir aðrir að ég þurfti ekki að fara austur á Hellu til að borða hádegismat með börnunum mínum en mér tókst ekki einu sinni að fá tíma til að skjótast á fimm mínútum vestur á Seltjarnarnes til að sjá börnin mín í hádeginu. Síðan voru fundirnir fram í kvöldmatartímann og engin leið var að sinna þeim störfum sem fólk vill sinna sem er með fjölskyldur. Þá leit á mig reyndur þingmaður í formannsstöðu og sagði: ,,Maður reiknar nú með því að það sé fólk heima sem tekur þessi störf að sér.`` Ég fékk að heyra það. Ég ætla ekki að segja hver það var en ég vona að sá maður hafi séð að sér og áttað sig á að foreldrarnir eiga að hafa jafnan rétt á að sinna sínum fjölskyldum. Ég vil láta það verða mín lokaorð að við erum ekki aðeins að tala um rétt kvenna til að sinna þessum störfum, heldur rétt þjóðfélagsins til að njóta þeirrar visku og reynslu sem konur búa að.