Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:39:47 (5719)

1998-04-22 15:39:47# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., JHall
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að taka þátt í umræðum í því máli sem hér liggur fyrir og fjallar um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands og er raunar endurflutt frá síðasta þingi. Rétt er að fram komi strax að ég er algjörlega ósammála annars ágætum fimm hv. flm. frv.

Þegar núverandi lög um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands voru undirbúin, ef ég man rétt á árinu 1993 að mestu, var til þess máls sérstaklega vandað og sérfróðri nefnd sem skipuð var fulltrúum ýmissa aðila falið það hlutverk. Um ástæður þess að breyta þurfti þáverandi lögum um Brunabótafélag Íslands vegna aðildar Íslands að Evrópsku efnhagssvæði verður ekki nánar farið út í hér.

Virðulegur forseti. Til að öðlast skilning á því málefni sem hér er til umræðu verður að líta til sögunnar og allt til stofnunar Brunabótafélags Íslands sem varð til með lögum nr. 58/1917. Þar var m.a. kveðið á um að félagið væri gagnkvæmt brunabótafélag og ábyrgðist landssjóður allt að kr. 600 þús. gamlar og lánaði félaginu jafnframt gamlar 20 þús. kr. í starfsfé og skyldi greiða af því 4% árlega. Þetta lán var endurgreitt að fullu til ríkisins með vöxtum á árunum 1927--1928. Ábyrgð ríkissjóðs var svo felld niður að fullu 1942.

Það er staðreynd að ríkið átti hvorki þá né síðar tilkall til eignar í félaginu. Staðfestist þetta í greinargerð þeirra Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda, og Tryggva Gunnarssonar hrl., dagsettri 29. mars 1993, en álitsgerðin var unnin að beiðni framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Í niðurstöðum 4. liðar sömu álitsgerðar segir svo, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því hversu óvirkt og óvisst hugsanlegt tilkall félagsmanna BÍ er til eigna BÍ verður að telja líkur á að löggjafinn geti, án þess að það fari á bága við ákvæði 66. gr. stjórnarskrárinnar, mælt fyrir um ráðstöfun á eignum BÍ í þágu þeirra markmiða sem lög um BÍ hafa verið byggð á enda séu uppfyllt ýmis almenn skilyrði slíkrar lagasetningar.``

Þessi afdráttarlausa skilgreining tvímenninganna á réttarstöðu félagsins er eitt af grundvallaratriðum þeim sem vörðuðu leiðina í nýrri lagasetningu um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994.

En nánar að aðdraganda þeirra breytinga sem orsökuðu tilurð eignarhaldsfélagsins. Á aðalfundi fulltrúaráðs Brunabótafélags Íslands 31. ágúst 1991 samþykkti fundurinn ályktun um að breyta Brunabótafélaginu í eignarhaldsfélag þar sem byggt yrði á sama grunni og þá var varðandi aðild sveitarfélaga og héraðsnefnda að fulltrúaráði og stjórn með það fyrir augum að viðhalda yfirráðum sveitarfélaganna í BÍ.

Þessi ályktun var gerð í framhaldi af ákvörðun fulltrúaráðs, stjórnar og forstjóra Brunabótafélags Íslands í janúar 1989 um að stofna Vátryggingafélag Íslands hf. með Samvinnutryggingum gt.

Fyrir lagabreytinguna 1994 fór fram rækileg úttekt á formi félagsins, réttindum félagsmanna og áhrifum þess ef félaginu yrði slitið. Skoðuð voru mörg álitamál, m.a. eignaraðild ríkisins, spurningin um breytingu í hlutafélag, sala á félaginu svo og slit á félaginu. Eftir nákvæma lagalega skoðun var ljóst að ef breyta ætti formi félagsins í einhverja veru yrði að slíta félaginu og var það að sjálfsögðu á valdi Alþingis sem hefði þá sagt til um slitameðferð að fengnu tilliti hagsmuna kröfuhafa og sameigenda.

Við slit á félaginu hefði þurft að skipta nettóslitaverðmæti, þ.e. því sem eftir var þegar búið var að greiða allt, á milli 104 þúsund tryggingarskírteina eða um 65 þúsund tryggingartaka á þeim tíma. Minna var það nú ekki.

Alþingi bar hins vegar gæfu til þess að samþykkja framlagt lagafrv. um breytingu á BÍ í eignarhaldsfélag og gæta þar með fyllstu réttinda sameigenda svo og sveitarfélaganna, sbr. lög nr. 68/1994.

Virðulegi forseti. Ég vil þá víkja að efni frv. þess sem hér liggur fyrir og ræða það. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Slíta skal Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands. Um meðferð eigna og skulda fé lagsins við slitin fer samkvæmt ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 68/1994.``

En hvað segir svo þessi grein? Upphaf málsgreinarinnar er þannig, með leyfi forseta:

,,Ákveði fulltrúaráð að slíta félaginu skal fyrst inna af hendi allar skuldbindingar ...``

[15:45]

Samkvæmt lögum félagsins er gert ráð fyrir því að fulltrúaráðið slíti félaginu og hafi eitt rétt til þess og er það í samræmi við 1. mgr. 9. gr. laganna, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í málefnum félagsins.``

Með lögum um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, nr. 68/1994, afhenti löggjafinn fulltrúaráðinu og þar með sveitarfélögunum full umráð yfir Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands og slitarétt í félaginu. Mér er spurn: Hvað hefur félagið eða stjórn þess unnið til saka svo að fjórum árum síðar sé talin nauðsyn á að slíta félaginu með lögum? Það væri gott að fá það upplýst.

Í greinargerðinni með frv. er afar villandi samanburður svo sem kom fram áður í umræðunni en þar er vitnað í 3. gr. laga um Eignarhaldsfélagið, nr. 68/1994, og bent á að einn megintilgangur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands sé að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum, sem er rétt. Hins vegar er alrangt að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hafi snúið frá lögbundnum aðaltilgangi sínum eins og þar er nefnt í greinargerðinni með því að selja hlutabréf sín í Vátryggingafélagi Íslands til Landsbanka Íslands.

Eignarhald í vátryggingafélögum skv. 3. gr. laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands er einn þátturinn um megintilgang félagsins, ekki aðaltilgangur eins og haldið er fram í greinargerðinni. Engin yfirlýsing, ég endurtek, engin yfirlýsing liggur fyrir um að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands ætli ekki í framtíðinni að eiga eignarhald í vátryggingafélögum. Félagið er með eignarhald í vátryggingafélögum til 2. júlí 1999 samkvæmt staðfestingu Vátryggingareftirlitsins í bréfi frá 2. apríl 1997, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Kaupin eru ekki um garð gengin og enn þá á eignarhaldsfélagið virkan eignarhlut í nefndum vátryggingafélögum``, þ.e. LÍFÍS og VÍS.

Félagið hefur því nægan tíma til athafna gagnvart því að uppfylla skyldu laganna eða fram til 2. júlí 1999 og liggur fyrir ákveðin stefnumótun félagsins um þennan framkvæmdarþátt starfseminnar.

Í greinargerð með frv. er vísað til álitsgerðar og niðurstöðu þeirra Árna Tómassonar og Tryggva Gunnarssonar frá 1993. Álitsgerðin og umsögn þeirra félaga byggir á tilvísun laga nr. 9/1995, sem eru eldri lög um Brunabótafélag Íslands. Álitsgerðin á niðurstöðum var grundvöllur að lagagerðinni 1994 eins og fyrr er getið í ræðu minni sem Alþingi samþykkti 28. apríl 1994 eða lög nr. 68/1994. Það er því beinlínis villandi að taka þessar niðurstöður álitsgerðarinnar án þess að skýra nánar umfjöllun þeirra Árna og Tryggva í álitsgerðinni sjálfri.

Virðulegur forseti. Umræða sú sem fór fram í hv. Alþingi 12. mars sl. er um margt óvenjuleg, einkum vegna þess að við lestur ræðu 1. flm. frv., hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, virðist svo sem misskilningur sé allvíða á ferðinni sem þarfnast greinilega leiðréttinga við. Þrátt fyrir það að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi leitast við að fá leiðréttingar eða skýringar fannst mér það ganga heldur brösulega við lesturinn. Með leyfi virðulegs forseta langar mig til að grípa niður í ræðu hv. þm., 1. flm., og árétta skoðun mína um að leiðréttinga sé þörf. Ég gríp þá fyrst niður í það sem sagt er:

,,Þeir lögðu fyrst niður Brunabótafélagið, í fyrstu mynd sinni, og hófu samstarf við annað gagnkvæmt tryggingafélag,`` --- þetta er náttúrlega ekki rétt. Við lögðum ekki niður Brunabótafélagið. Það var ekki lagt niður --- ,,Samvinnutryggingar Íslands. Það samstarf gekk mjög vel.

Á síðasta ári gerðist það síðan, herra forseti, að þeir sem voru handhafar eignarhaldsfélagsins ákváðu að stíga skrefið til fulls, selja hlut sinn í Vátryggingafélagi Íslands, breyta félagi sínu í almennt fjármálafélag og hefja almenna fjármálastarfsemi. Þannig gerðist þetta. Þeir hættu að starfa og eru ekki lengur gagnkvæmt tryggingafélag, heldur eru þeir á markaði með almenna fjármálastarfsemi.

Þetta, herra forseti, höfum við flm. þessa frv. fyrst og fremst litið á. Við teljum að þar sem hið gagnkvæma tryggingafélag hefur hætt starfsemi þá beri að slíta því. Það er megininntak frv.``

Þetta er mikil missögn og misskilningur því að þessu gagnkvæma félagi var breytt 1994 úr þessu gagnkvæma félagi í eignarhaldsfélag. Hér er enn einu sinni á ferðinni misskilningur sem reynt hefur verið að leiðrétta.

Enn fremur, með leyfi forseta, langar mig að vitna síðar í ræðu sama hv. þm.:

,,Að því er vikið í þessum fréttatilkynningum að eignarhaldsfélagið sé hinn þarfasti þjónn sveitarfélaganna enda hafi það nú ákveðið sér það hlutskipti að lána sveitarfélögunum til hinna þörfustu hluta. Eins er sagt frá því að nú á útmánuðum hafi þeir tekið þá ákvörðun að greiða sveitarfélögunum, í fyrsta skipti í sögu félagsins, arð eða eignarágóðahlut sem nemur 3% af höfuðstól félagsins eftir síðasta ár, um 110 millj. Við sölu Brunabótafélagsins á hlut sínum í VÍS var hlutur þess metinn á 3,4 milljarða kr. Af því má sjá að hér er um verulega fjármuni að ræða, umtalsverða fjármuni.``

Best er að byrja á því að segja að hluturinn var ekki metinn á 3,4 milljarða, hann var seldur. Söluverðið var ákveðið verð. Ágóðahlutur var greiddur um margra ára skeið hjá Brunabótafélagi Íslands. Frá árinu 1934--1941 var t.d. greiddur ágóðahlutur til sveitarfélaga í formi bættra brunavarna og afsláttar 275 þús. kr. sem væri á núvirði um það bil 25 millj. kr. Þannig var byrjunin á ágóðahlutunum svo að menn séu klárir á því.

Enn fremur skal upplýst að á árunum 1955--1985 greiddi félagið út fjárhæð um það bil 700 millj. kr. á núvirði. Það er rangt sem haldið er fram að félagið, fulltrúaráð og stjórn félagsins hafi engan rétt til úthlutunar ágóðahluta og verður að draga í efa að þeir hinir sömu sem halda slíku fram hafi yfirleitt lesið lögin um eignarhaldsfélagið.

Einnig er rangt sem kom fram í ræðu 1. flm., hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að greiddur hafi verið 3% eignar\-ágóðahluti af höfuðstól félagsins eftir síðasta ár, kr. 110 millj. kr. Hið rétta er að úthlutun ágóðahlutar á árinu 1998 verður 110 millj. kr. og ekki af höfuðstól félagsins heldur af ávöxtunarþættinum, þess andvirðis sölu hlutabréfa Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands í VÍS til Landbankans og það er fyrir tímabilið apríl 1997 út desember 1998.

Þá er einnig mikilsvert að menn taki eftir að félagið greiddi aldrei þeim einstaklingum sem tryggðu hjá félaginu út ágóðahluta, þannig að það sé á hreinu, einungis sveitarfélögum. Ágóðahlutar greiddir til sveitarfélaga komu síðan einstaklingum til góða í bættum brunavörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum af ýmsu tagi og það hlýtur að vera óumdeilt, líka á Vestfjörðum.

Undir lok framsögu sinnar segir hv. 1. flm., með leyfi virðulegs forseta:

,,Það liggur fyrir að félagið er hætt starfsemi.``

Þvílíkur misskilningur, virðulegi forseti. Af hverju leita hv. þingmenn sér ekki upplýsinga áður en farið er með slíkar firrur sem þessa á hinu háa Alþingi? Í reikningum VÍS og LÍFÍS kemur fram að 31. des. sl. var stærsti einstaki eignaraðilinn í VÍS Brunabótafélag Íslands með 38,9% eignaraðild og næststærsti aðilinn í LÍFÍS er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands með 39,1%. Þetta er fyrir aðeins fjórum mánuðum. Með einu símtali hefðu hv. flm. getað fengið staðfestingu á þessu hjá Vátryggingareftirlitinu, stofnun sem þeir annars mega trúa og treysta og ætti að geta metið stöðuna hlutlaust og segja satt. Hvað skyldi Vátryggingareftirlitið segja um það mál? Í bréfi dagsettu 2. apríl segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þegar tekið er mið af fyrirliggjandi gögnum og fundum sem haldnir hafa verið telur eftirlitið að óbreyttu að eignarhaldsfélagið eigi virkan eignarhlut í Vátryggingafélagi Íslands hf. og Líftryggingafélagi Íslands hf. þrátt fyrir samkomulag aðila um áfangakaup og kauprétt. Kaupin eru ekki um garð gengin og enn þá á eignarhaldsfélagið virkan eignarhlut í nefndum vátryggingafélögum.``

Virðulegur forseti. Svo mörg voru þau orð og ættu að vera skiljanleg hverju mannsbarni. Félagið er sprelllifandi og fjárhagslega betur í stakk búið en nokkru sinni að starfa eftir þeim lögum og samþykktum sem við eiga og mun vonandi eftir 2. júlí 1999 starfa af sama krafti, hlýða kalli tímans og hasla sér völl, hafa frumkvæði um nýjungar og framfarir á tryggingasviði eins og undanfarna áratugi með sveitarfélögum og fyrir sveitarfélög og þar með fyrir fólkið í landinu. Félagið hefur sem fyrr háleit og metnaðarfull áform sem munu ganga eftir fái það til þess starfsfrið.

Að lokum, virðulegur forseti, eins og fram hefur komið óskaði hv. efh.- og viðskn. eftir að hæstv. viðskrh. léti vinna álitsgerð um réttarstöðu Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands. Mér er tjáð að þetta álit liggi nú fyrir án þess að hafa nokkuð annað en sannfæringuna að leiðarljósi. Ég er þess fullviss að þetta nýja álit hljóti að staðfesta álit eða greinargerð þeirra virtu sérfræðinga sem unnu fyrir einkavæðingarnefndina 1993 eða því vil ég a.m.k. trúa þar til annað kemur í ljós.

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er ekki þingvanur ef svo má að orði komast og hefur því ekki mikla reynslu eða þekkingu á framsetningu þingmála en leyfir sér þó að halda því fram að hér séu einstaklega óvönduð vinnubrögð á ferðinni. Það frv. sem liggur frammi til umfjöllunar tel ég vera hálfgerða tímaskekkju. Það er mistök, ef ekki byggt á misskilningi, þá óskiljanlegum yfirgangi í garð sveitarfélaganna sem farið hafa með forræði í félaginu um langa hríð og ávaxtað pund sitt ákaflega vel svo ekki sé fastara að orði kveðið. Þetta mega ekki vera þakkirnar, virðulegi forseti. Hv. flm. ættu því að draga frv. til baka og yrðu meiri menn að.