Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:01:17 (5720)

1998-04-22 18:01:17# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Frá því að við hófum þessa umræðu um miðjan mars hefur þeirri skýrslu sem viðskrh. stóð fyrir að gerð yrði, álitsgerð um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem ekki hafði verið dreift þá, verið dreift. Við sem erum í efh.- og viðskn. höfum þessa skýrslu undir höndum og ég lít þannig á að hún sé ekki neitt launungarmál.

Þegar við hófum umræðuna kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að hann efaðist mjög um að það fengi staðist að við gætum breytt þessum lögum. Hann lét í ljós þá skoðun að nauðsynlegt væri að sjá þessa álitsgerð til að sjá hvort það stæðist. Í máli hv. 1. þm. Austurl., Jónasar Hallgrímssonar, kom í ljós að hann hefði ekki séð þessa skýrslu en vænti þess að fá að sjá hana.

Því er nú best, herra forseti, að byrja þetta á því að minnast á skýrsluna. Í henni fara lögmennirnir yfir sögu Brunabótafélagsins og helstu niðurstöður Árna Tómassonar og Tryggva Gunnarssonar. Þeir fjalla um lögin um Brunabótafélag Íslands og lögin um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, hvaða álitsgerðir þá voru gefnar, hvaða álit voru þá uppi um eignarrétt félagsmanna í Brunabótafélagi Íslands og hvort eignarréttindi eignarréttarhafa í Brunabótafélagi Íslands hafi verið fyrir borð borin með samþykkt laga nr. 68/1994.

Fyrirsögn VII kafla er: Breytir samþykkt frumvarps til laga um slit á Eignarhaldsfélagi BÍ einhverju?

Síðan eru helstu niðurstöður. Niðurstöður þessara virtu lögmanna eru í sem stystu máli þær að þeir telja, eins og Árni Tómasson, að 1994 hefði Alþingi alveg verið stætt á að setja þau lög. Með nákvæmlega sömu rökum telja þeir að Alþingi sé nú stætt á því að breyta þessum lögum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hafi einhverjir hv. þm. ekki fengið þessa skýrslu þá skal ég sjá til þess að koma henni til þeirra.

Ég tel, að þessu sögðu, ljóst að áhyggjur hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar voru ástæðulausar. Álitsgerð þessara virtu lögmanna, Þorgeirs Örlygssonar og Stefáns Más, liggur fyrir þannig að óþarft er að velta vöngum yfir því.

Hér áðan ræddi Sturla Böðvarsson nokkuð um þetta mál og lýsti því yfir að hann teldi aldeilis fráleitt að breyta þessum lögum. Ég held að rétt einu sinni þurfi að benda á að þetta frv. er um slit á eignarhaldsfélaginu. Í því er lagt til að farið verði að vilja trúnaðarráðsins eins og lög gera ráð fyrir.

Ég hef nú haft orð á því áður að í þessu frv. er engin ádeila á félagsmenn í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands. Hjá okkur flm. hefur aldrei komið fram að á sínum tíma hafi ekki verið rétt hjá þeim að vilja selja hlut sinn í BÍ. Við höfum aldrei efast um það né sagt nokkuð um það. Það kann vel að vera að svo hafi verið.

Brunabótafélag Íslands, samkvæmt öllum þeim álitsgerðum sem liggja fyrir, allri sögu þess og þeirri umfjöllun sem það hefur fengið og það er ekki talið vafamál af neinum, er gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda. Það er alveg skýrt í íslenskri löggjöf, svo og í allri löggjöf Norður-Evrópu, hvað ,,gagnkvæm ábyrgð`` í tryggingafélagi merkir. Tryggjendurnir taka á sig ábyrgðina. Ef illa fer, ef höfuðstóllinn verður mínus, þá er hann þeirra. Þeir verða að greiða það með iðgjöldum sínum eða greiðslum. Ef hann er plús, þá er höfuðstóllinn þeirra, engra annarra.

Á sínum tíma var farið mjög í gegnum þessi mál vegna þess, og það er ekkert launungarmál, að fjmrn. ásældist þetta félag. Það reyndi að finna sér tylliástæðu til þess að eignast það. Það tókst ekki. Önnur atrennan var þegar sveitarfélögin reyndu að eignast þetta félag. Þau leituðu sér að hvaða tylliástæðu sem var en það tókst ekki. Niðurstaðan varð sú að hvorki ríkið né sveitarfélögin ættu þetta félag. Það var skýlaus niðurstaða að félagið væri eign vátryggjendanna.

Þá var ákveðið að fara þessa leið og hér liggur fyrir álitsgerð. Við flm. þessa frv. höfum aldrei komið með athugasemdir um að ekki hafi verið löglegt að fara þá leið sem farin var árið 1994. Í dag er það jafnskýrt og öllum vel kunnugt að Brunabótafélag Íslands er hætt starfsemi sem tryggingafélag. Það er eignarhaldsfélag sem á sinn hlutabréfa- eða verðbréfastokk eins og önnur eignarhaldsfélög á verðbréfamarkaði. Auðvitað geta þeir átt einhvern hlut í tryggingafélögum. Í stokknum geta verið hlutabréf í vátryggingafélögum. Það segir ekkert um það. Þeir eru engu síður hættir sinni starfsemi og samkvæmt öllum reglum og öllu áliti í Norður-Evrópu ber að skila gagnkvæmum tryggingafélögum til eigenda sinna. Um það eru hvergi deilur.

Það er mjög rangt sem kom hér fram í máli hv. 1. þm. Austurl. um að menn hefðu verið hafðir fyrir rangri sök. Enginn hefur borið sök á hendur þeim. Þeir hafa heldur ekkert til sakar unnið. Það sem hv. þm. las upp úr ræðu minni frá því 14. mars er allt nákvæmlega hárrétt. Samvinnutryggingar og Brunabótafélag Íslands voru gagnkvæm tryggingafélög. Þau mynduðu með sér VÍS. Það er ekkert rangt í þeirri sagnfræði. Þar misferst ekki eitt einasta atriði. Sá upplestur var út af fyrir sig ágætur, vegna þess að það er ekki verra að sjónarmið mín og röksemdir séu oftar flutt og ég þakka hv. þm. fyrir það.

Á tveimur stöðum, eða á þremur stöðum réttara sagt, taldi hv. þm. að ég hefði feilað. Skal nú farið yfir það. Hann taldi rangt hjá mér að Brunabótafélag Íslands væri hætt í tryggingum. Hann sagði það mjög rangt og hér lægi að baki vankunnátta mín. Hann sagði félagið virkt, eins og hann orðaði það, virkt í sinni tryggingastarfsemi, virkur tryggingaraðili. Hann las upp úr skýrslu Tryggingaeftirlitsins því til staðfestingar.

Það er alveg hárrétt. Brunabótafélag Íslands er enn skráð sem eigandi að hlutabréfum í VÍS. Við í efh.- og viðskn. gerðum nákvæmlega grein fyrir því, bæði endurskoðendum Landsbankans svo og bankaeftirlitinu, að það yrði að vera svo vegna þess að það væri eina leiðin fyrir Landsbanka Íslands að kaupa, vegna BIS-reglna. Þannig að það er rangt hjá hv. þm. að hér sé um vankunnáttu mína að ræða. Það varð að skrá þetta svona og okkur var tilkynnt það. Við vissum þetta nákvæmlega.

Hitt liggur einnig fyrir að Landsbanki Íslands fer með öll atkvæði Brunabótafélags Íslands á síðasta aðalfundi. Þau hafa verið staðfest, þannig að virkni félagsins í tryggingamarkaði er nú svona og svona.

Í öðru lagi gerði hv. þm. athugasemd við að ég hefði ranglega sagt að félagið hefði verið virt á 3,4 milljarða. Hann sagði það ekki hafa verið rétt, það hefði verið selt á 3,4 milljarða. Ég verð að biðja, herra forseti, afsökunar á þessu en kaupandinn hlýtur þó að hafa virt það á 3,4 milljarða. Varla hefur hann keypt það öðruvísi. Í minni sveit hefði þessi villa ekki verið talin mjög alvarleg.

Í þriðja lagi gerir hann athugasemdir við að ég sagði að arðgreiðslur til sveitarfélaganna, 110 milljónir, væru 3% af höfuðstól félagsins. Við nánari athugun sé ég að það er ekki rétt hjá mér. Þær eru 3,23% og ég hefði átt að hafa þetta nákvæmara. Það leiðréttist þá hér með.

Öll eldmessan gegn þessu frv. hjá hv. þm. gekk út á að hann var yfir sig hneykslaður og þótti það forundran mikil að menn skyldu leyfa sér að leggja fram frv. sem fæli í sér breytingu á lögum. Ég verð nú að segja það, herra forseti, að það var kannski kominn tími til að slík ræða yrði haldin hér í þingsölum. Allt starf þingsins gengur út á þetta. Daginn út og daginn inn er fjallað um frumvörp sem öll eru um breytingar á lögum. Það er þá aldeilis ástæða til að hneykslast á framferði þingsins. Það er sjaldgæft að fyrir komi mál sem telja mætti nýmæli eða nýjar lagasetningar.

Þetta frv. er til laga um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands. Frumvarpið gengur út á að skila eignum til réttra eigenda. Það er nú ekkert flóknara. Frv. er um prinsippmál. Enginn hefur deilt um það hverjir eigendurnir eru.

Ég get, herra forseti, getið þess hér, af því að það er dálítið gaman að því, að fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands er náttúrlega ekkert ánægt með þennan tillöguflutning. Ég get ósköp vel skilið það í sjálfu sér. Þeir óttast um sinn hag og vegna þess sendu þeir beiðni til mjög virtrar málaflutningsskrifstofu hér í Reykjavík, Málaflutningsskrifstofunnar á Suðurlandsbraut 4, þar sem þeir starfa Pétur Guðmundarson, Hákon Árnason o.fl. Þar var óskað álits á því hvort að með lagasetningu væri strax hægt að yfirfæra allan eignarrétt í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands til sveitarfélaganna, án bóta til núverandi sameigenda, skv. 1. og 2. tölulið 5. gr. laga nr. 68/1994. Auðvitað þykir þeim óþægilegt að bíða eftir því að eigendurnir deyi. Þess vegna sendu þeir þetta bréf og vildu vita hvort ekki væri hægt bara að eignast þetta með lagasetningu strax.

Þeir fengu svarið frá hinni virtu lögmannsstofu við þeirri spurningu hvort unnt væri með lagasetningu að yfirfæra allan eignarrétt í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands strax yfir til sveitarfélaganna. Því var hiklaust svarað þannig að það yrði ekki gert öðruvísi en allir þeir sameigendur, sem við það missa eignarhlut sinn í félaginu, fái fullar bætur fyrir.

Þannig hljómaði svarið. Þannig að ekki urðu þessar bréfaskriftir mikill fengur fyrir það ágæta félag sem hv. 1. þm. Austurl. kallaði hér alltaf öðru hvoru: Við ... við. Það hlýtur náttúrlega að segja sína sögu.

Frumvarpið, herra forseti, sem hér er lagt fram er prinsippmál til þess að sýna fram á að þinginu komi það við hvernig er farið með eignarréttinn. Ef menn virða ekki eignarréttinn, virða ekki hið augljósa í því, hvað skyldi þá virt í öðru? Hér er ekki gerð árás á sveitarfélögin eða Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Enginn efast um að auðvitað gætu þeir farið vel með peninga og hafi allir góðar meiningar. Enginn efast um það.

Eins og aðrir ráðsstjórnarsinnar trúa þeir því að þeir séu betur til þess fallnir að fara með fjármuni almennings heldur en almenningi sjálfum. Hverjir eru þessir eigendur, herra forseti? Eigendurnir sem þeir treysta ekki fyrir því að fara með sinn fjárhlut eru íbúar sveitarfélaganna sem þeir eru fulltrúar fyrir. Það er fólkið sem þeir treysta ekki. Þeir telja sig betur til þess fallna að fara með þessa peninga. Það er hættulegt, herra forseti, að hafa 3,5 milljarða sem á reki án þess að þeir séu í eigu einnhverra. Það er hættulegt og hefði slæm áhrif á viðskiptalífið að láta slíkt viðgangast.