Jarðabréf

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:42:48 (5726)

1998-04-22 18:42:48# 122. lþ. 110.7 fundur 506. mál: #A jarðabréf# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:42]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um jarðabréf sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Alþingi skorar á ríkisstjórnina að auðvelda nýliðun í landbúnaði með því að koma á nýjum lánaflokki, ,,jarðabréfum``, er bjóði upp á svipaðan lánstíma og lánskjör við kaup á bújörðum og húsbréf við kaup á íbúðarhúsnæði. Heimilt verði að lána allt að 65% af kaupverði bújarða, þ.e. til kaupa á landi, fasteignum, vélum og bústofni.``

Við vitum það sem til þekkjum í íslenskum landbúnaði að nýliðun í landbúnaði hefur á undanförnum árum verið allt of lítil til að greinin geti þróast eðlilega. Ástæðurnar má einkum rekja til lélegrar afkomu af búrekstri og erfiðleika nýliða við að afla langtímalána til jarðakaupa. Afkoma af búrekstri eins og hún er nú gerir bónda sem er að hefja búskap ekki mögulegt að standa undir greiðslubyrði af fjárfestingarlánum þegar lánstími er einungis til nokkurra ára. Þótt margir eldri bændur vilji hætta búskap í því skyni að hleypa yngri bændum að jörðinni ráða ungir bændur ekki við að kaupa miðað við þá fjármögnun sem er í boði. Afrakstur ævistarfs flestra bænda er bundinn í jörðum þeirra og bústofni og þeir eiga ekki hægt um vik að selja jörð og bústofn nema þeir fái umtalsverðan hlut söluverðsins greiddan á öruggan hátt.

Með því að bjóða upp á húsbréf eykur ríkisvaldið öryggi í viðskiptum með íbúðarhúsnæði jafnframt því sem slík kaup eru aðgengilegri fyrir kaupanda og seljanda. Jarðakaup fela að sjálfsögðu í sér kaup á fleiru en íbúðarhúsnæði þar sem íbúðarhús, land, útihús, vélar og búpeningur eru órjúfanleg heild eigi jörð að haldast í ábúð. Hugmyndin að jarðabréfum gengur út á að stofnaður verði nýr lánaflokkur þar sem lánað verði til allt að 40 ára til kaupa á jörðum ásamt fasteignum, vélum og búpeningi. Ég tel ekki óeðlilegt þegar lán er veitt til jarðakaupa að líta á búrekstur eins og annan rekstur þar sem einn rekstrarþáttur verður ekki skilinn frá öðrum, það sem kallað er á enskri tungu: ,,going concern``, þ.e. að líta á þetta sem eina heild sem sé andlag veðs sem ein heild. Á sama hátt og með húsbréf fær kaupandi jarðar veðleyfi fyrir skuldabréfi með heildarveði í viðkomandi jörð. Kaupandinn skiptir á skuldabréfinu fyrir ríkistryggð jarðabréf sem útgefandi sér um að afhenda seljanda jarðarinnar. Ég tel að ef þetta kemst á þá muni það hjálpa mjög til við kynslóðaskipti á jörðum.

[18:45]

Það má þakka fyrir að eftir að þessi þáltill. var lögð fram --- það eru allmargir mánuðir síðan hún var lögð fyrir þingið --- þá kom fram frv. til laga frá ríkisstjórninni um að lengja lánstíma í Lánasjóði landbúnaðarins sem áður var Stofnlánadeild landbúnaðarins og þar er verulega komið til móts við þau sjónarmið sem eru í þessari þáltill. minni. Því má spyrja hvort eðlilegt hefði verið að draga þetta mál bara til baka þar sem ríkisstjórnin hafði gert þetta --- eins og ég sé málið --- eftir að þessi þáltill. hafði verið lögð fram og málið tekið upp. Ég tel þó ekki rétt að draga þáltill. til baka vegna þess að ég tel að það vanti nokkuð á í lagafrv. ríkisstjórnarinnar um lengingu lána til jarðakaupa. Ég tel að það vanti nokkuð á að viðurkennt sé að jörð, bústofn og vélar séu eitt og verði ekki skilin hvert frá öðru þegar kemur að því að veita lán. Menn þurfa á þessu öllu að halda eigi að vera hægt að annast búrekstur.

Það er svo aftur annað mál að þau vinnubrögð sem tíðkast hér á þessum ágæta vinnustað eru mjög sérstök, þ.e. að þau mál sem þingmenn leggja fram og eru komin fram fyrir mörgum mánuðum þurfi að bíða á meðan frv. sem koma frá ríkisstjórninni, jafnvel um sömu mál og þingmenn eru áður búnir að leggja fram, séu tekin fram fyrir eins og ég var að lýsa áður og fá betra rými til að hægt sé að koma þeim að og tala fyrir þeim. Með því er ég alls ekki og síður en svo að tala gegn því að frv. um lengingu lána verði ekki afgreitt. Ég vona svo sannarlega að það verði gert. Mér finnst þessi vinnubrögð, að málin komi ekki til umræðu eftir því hvenær þau eru lögð fram, engu að síður allsérstök.

Ég vona að hv. landbn. taki þau atriði til skoðunar sem eru í þessari þáltill. sem ég gleymdi að geta um áðan að Egill Jónsson flytur með mér. Ég vona að hv. landbn. skoði hvort ekki sé rétt að líta á jarðir sem einn rekstrarþátt, þ.e. ekki bara jörðina sjálfa heldur hús, vélar og búpening, og miða lánveitingar við það að menn þurfa á öllum þessum þáttum að halda eigi að vera hægt að stunda búskap.