PCB og önnur þrávirk lífræn efni

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:10:09 (5729)

1998-04-22 19:10:09# 122. lþ. 110.9 fundur 535. mál: #A PCB og önnur þrávirk lífræn efni# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson á hrós skilið fyrir að vera frumkvöðull að því að flytja þessa tillögu. Ég er að sönnu einn þriggja flutningsmanna með honum en hann á allt frumkvæði að þessu. Tillagan felur í sér að stjórnvöldum verði falið að gera úttekt á því hvar sé að finna einhvers konar uppsprettur PCB hér á landi og jafnframt að gera allt sem hægt er til þess að eyða þeim. Hv. þm. rakti í mjög ítarlegu máli hvers vegna nauðsyn er á þessu og í máli hans sem og grg. sem hann ritaði með þáltill. er að finna mjög fróðlegar upplýsingar um þær mælingar sem hafa farið fram á PCB á ýmsum stöðum á landinu, þar á meðal á ýmsum stöðum eystra. Ég er viss um að þær mælingar hafa fallið í glatkistuna eða menn hafi ekki gert sér grein fyrir þeim, því að ég veit vel að í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í tengslum við PCB hafa menn ekki dregið þetta inn í umræðuna. Þar er um að ræða dæmi um staðbundna mengun PCB. Hv. þm. gat þess að ákveðna hættu gæti leitt af einmitt slíkum lindum, sér í lagi sem óþekktar eru.

Þá komum við að stöðunni á Íslandi og hvernig Ísland er í stakk búið gagnvart öðrum löndum. Hv. þm. drap á Kanada og sagði að Kanadamenn hefðu í fyrsta lagi þegar kortlagt þær stöðvar sem kynnu að menga PCB frá sér og í öðru lagi fylgjast þeir reglulega með mælingum. Ég held að einmitt þetta sé nauðsynlegt á Íslandi. Ég held að nauðsynlegt sé að við tökum upp einhvers konar reglubundnar mælingar í grennd við staði þar sem þess er að vænta að PCB kunni að vera fólgið.

Nú vill svo til, herra forseti, að afskaplega lítið er til af gögnum sem benda til þess hvar PCB sé að finna. PCB sérstaklega er einkum að finna í olíu í þéttum sem notaðir voru í talsvert miklum mæli hér áður fyrr í tengslum við ýmiss konar spennistöðvar og raforkumannvirki og það gefur auga leið að talsverðu magni af þessum tækjum hefur verið fleygt í áranna rás. Það var gert jafnan áður fyrr án þess að olían væri tekin af þeim. Hvað varð um þessi tæki? Það vita fáir í dag. Við vitum þó að þeim hefur verið fargað oft og tíðum á öskuhaugum og sorphaugum víðs vegar um landið.

Veltum til að mynda fyrir okkur gömlu sorphaugunum í Gufunesi sem eru svo að segja að færast inn í stærstu borg landsins. Stöðugt eru gömlu haugarnir í Gufunesi að færast nær borgarmiðjunni vegna þess að mörk borgarinnar eru alltaf að teygja sig lengra og lengra vestur og norður með. Vitum við eitthvað um hvað er að finna í þessum öskuhaugum? Því miður vitum við það ekki. Við vitum hins vegar að á síðustu áratugum var nokkuð um það að menn einfaldlega fluttu spenna þangað og grófu þá á þessum öskuhaugum. Menn vita ekki hversu marga né hvar í þeim víðfeðmu haugum þá er að finna.

Nú hafa menn hætt að nota þessa hauga og nánast ekki neitt fylgst með þeim. Enn í dag eru engin merki um að spennarnir, þéttarnir, sem voru grafnir þarna, séu farnir að leka en það er alveg öruggt að það kemur að því.

Mér er kunnugt um það, herra forseti, að í þeim geirum þar sem menn eru að mæla PCB og önnur lífræn þrávirk efni, þá hafa menn miklar áhyggjur af þessu. Þar hafa menn m.a. rætt þann möguleika að það hljóti að koma að því í framtíðinni, jafnvel ekki ýkja fjarlægri, að spennarnir og þéttarnir sem er að finna með PCB í kæliolíum sínum á öskuhaugunum í Gufunesi kunni að bresta. Hvað verður þá um olíuna? Hún mun þá leka út í umhverfið og smám saman mun þetta síga fram og út í hafið. Þá er líklegt að af því kunni að hljótast talsvert mikil mengun af völdum PCB. Það mun leiða til þess að ýmiss konar lífverur í grennd við höfuðborgina muni auðvitað mengast, fiskur kannski úti á sundunum og örugglega skeldýr og kannski staðbundnir fuglar.

Hv. þm. Kristján Pálsson reifaði einmitt þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á æðarfugli úti á Álftanesi sem eru reyndar nýjar af nálinni. Hlutirnir gerast kannski ekki svo hratt í vísindunum en þær eru það nýjar af nálinni að ekki er enn búið að birta þær í fræðiritum. Þetta telur hv. þm. með réttu að kunni að vera afleiðing af vonandi staðbundinni PCB-mengun. Ég segi vonandi vegna þess að ég tel það vera miklu æskilegri skýringu á þessu mikla magni af PCB sem finnst í þessum fuglum heldur en þá að allt lífríkið við strendurnar sé virkilega orðið svo mengað að þar sé að finna sjófugla sem eru með meira af þessum efnum í sér heldur en á ýmsum öðrum stöðum. Ég óska þess að þetta sé raunin en þá getum við velt því fyrir okkur, herra forseti, að ef til að mynda þessir þéttar, sem er að finna í öskuhaugunum á Gufunesi, mundu bresta eins og þeir munu örugglega gera í tímans rás muni það leiða til jafnmikillar mengunar eins og mælst hefur í æðarfuglum á Álftanesi. Það er rétt að taka fram, herra forseti, að sú mengun er það mikil að á tilteknum tímum ársins, þ.e. þegar fuglinn er að ganga á fituforða sinn til þess að mynda egg og líka þegar hann er að ganga á hann til að fá orku til að sinna ungum sínum, þá brotnar fitan niður. Þessi efni sitja í fitunni og þau fara út í blóðið og þá er magn þeirra í blóði svo mikið að sérfræðingar hafa sagt, og ég leyfi mér að vitna orðrétt til þeirra, herra forseti: ,,Af þessum sökum kann þetta að valda bráðum eiturhrifum.`` Þetta er reyndar það sem menn telja að sé orsök fjöldadauða meðal fugla á sumum stöðum Svalbarðaeyjaklasans þar sem menn hafa fundið gríðarlegt magn af mávum sem þeir gátu ekki í fyrstu rakið til neinnar sérstakrar orsakar en fundu síðar að í þessum fuglum var að finna talsvert mikið magn af PCB hvernig sem það komst í þá og út af fyrir sig væri hægt að skýra það.

Þetta sýnir, herra forseti, að í næsta nágrenni við höfuðborgina er nú þegar að finna mikla mengun sem við skulum vona að sé staðbundin, en hún gæti flust víðar og það er nauðsynlegt fyrir okkur að geta kortlagt þessa staði sem hafa einhvers konar gamalt dót og tæki sem geyma í sér PCB til þess að geta m.a. fylgst með þróun mála með mælingum. Það væri mikil óhæfa ef staðreyndin væri sú að mjög víða í strandbyggðum landsins, sem eru ekki mjög fáar, væri að finna einhvers konar tæki af þessum toga og í framtíðinni væri þess að vænta að þegar tímans tönn hefur unnið á þeim væri hægt að finna staðbundna mengun alls staðar við strendur landsins. Ég held að það gæti haft mjög slæm áhrif ekki síst á hreinleikaímynd landsins. Við skulum ekki gleyma því að eins og nafnið gefur til kynna eru þessi efni þrávirk, þau brotna ekki niður, þau geta verkað aftur og aftur mörgum sinnum, kannski um hundruð ára.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða, herra forseti. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé, eins og hv. þm. sagði, að vinda bug að því að kortleggja þau svæði þar sem hægt er að gera ráð fyrir að svona tæki sé að finna, reyna jafnframt að grafast fyrir um þær upplýsingar sem enn kunna að lifa einhvers staðar í gömlum skjölum eða jafnvel í minni lifandi manna til að fá fram frekari vitneskju um staðsetningu þessara slæmu efna og jafnframt að stjórnvöld geri það sem þau geta til að farga þeim í tæka tíð.