Rekstur björgunarsveita í landinu

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:31:44 (5735)

1998-04-22 19:31:44# 122. lþ. 110.12 fundur 551. mál: #A rekstur björgunarsveita í landinu# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:31]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem ég held að sé mikilvægt að fái framgang í Alþingi. Eins og kom fram í máli hv. frsm. eru björgunarsveitir mjög mikilvægar í okkar þjóðfélagi --- við þekkjum fjölmörg dæmi þess --- og einnig hitt að björgunarsveitirnir út um landið búa við mjög erfið rekstrarskilyrði þar sem tekjumöguleikar þeirra eru takmarkaðir o.s.frv. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að fram fari markvisst starf á vegum stjórnvalda til þess að leita leiða til að bæta stöðu björgunarsveita í landinu og tryggja rekstrargrundvöll þeirra betur en nú er.

Eins og kom fram og við þekkjum eru björgunarsveitirnir skipaðar sjálfboðaliðum sem eru oftar en ekki kallaðir til aðstoðar lögreglu og fleiri opinberrum aðilum þegar þannig ber til og björgunarsveitir krefjast yfirleitt ekki greiðslu fyrir vikið.

Einnig vil ég nefna að björgunarsveitirnar út um landið eru mikilvægir hlekkir í almannavarnakerfi landsins og það eru kannski enn frekari rök fyrir mikilvægi þess að tryggja stöðu þeirra í samfélaginu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál. Ég vildi einungis koma upp og lýsa stuðningi mínum við þetta mál og lýsa því hversu mikilvægt starf björgunarsveitanna er í okkar samfélagi. Ég vil nota tækifærið og hvetja til þess að það starf sem hér er gert ráð fyrir að ákveðin nefnd vinni fari fram og niðurstaða fáist úr því því að ég þekki dæmi þess að björgunarsveitir víða út um landsbyggðina eiga við mjög erfiðan kost að búa varðandi rekstrarstöðu. Hér er því mikið mál á ferðinni sem ég vona að nái framgangi.