Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:38:47 (5737)

1998-04-22 19:38:47# 122. lþ. 110.13 fundur 646. mál: #A réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# þál., ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:38]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég flyt þáltill. um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Flm. þessarar tillögu er Ólafur Örn Haraldsson og í fjarveru Ólafs flyt ég þessa tillögu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að bæta réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð þannig að uppfylli það ákveðin skilyrði njóti það sömu réttarstöðu og hjón. Nefndin hafi það jafnframt að leiðarljósi að styrkja hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu félagslega, efnahagslega og réttarfarslega.``

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er samfélag okkar síbreytilegt. Hlutverk laga endurspeglar samfélagsskipan okkar og í gegnum lögin mörkum við í raun eðlilegar og sanngjarnar leikreglur. Hjónabandið er það samfélagsform sem hefur verið viðurkennt í aldanna rás (ÖS: Er helgast.) og er helgast eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir réttilega á.

En samfélagsformið að skrá sig í sambúð verður æ algengara og leiðir ekki alltaf til giftingar. (ÖS: Því miður, því miður.) Réttarstaða einstaklinga í skráðri sambúð hefur breyst og hefur í raun fest í sessi.

Dæmi um viðurkenningu á þessu sambúðarformi má finna í almannatryggingakerfinu sem skilgreinir þetta sambúðarform þannig að ef fólk býr saman í eitt ár þá nýtur það svipaðra eða sömu réttinda og gift fólk. (ÖS: Því miður.) Skattyfirvöld viðurkenna þetta sambúðarform á þann hátt að ef viðkomandi aðilar hafa búið saman í eitt ár eða ef viðkomandi aðilar eiga barn saman þá getur fólk talið fram saman og notið þeirra skattahlunninda sem hjónabandið hefur.

Alvarlegasti munurinn á milli fólks í skráðri sambúð og giftra birtist í erfðalögum, þ.e. um gagnkvæman erfðarétt. Fólk í skráðri sambúð á ekki rétt til arfs ef annað þeirra fellur frá. Það er í raun nauðsynlegt að endurskoða tryggingarskilmála sem geta mismunað fólki eftir sambúðarformi. Dæmi um slíkt kom fram í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu þegar ungur maður lést á einu af varðskipum okkar við björgunarstörf en sambýliskona hans stóð eftir með tvö börn og með takmarkaðan rétt gagnvart tryggingum þessa sjómanns. Þess vegna er brýnt að ná samstöðu um að þetta form njóti sömu réttinda að þessu leytinu til og hjónabandið.