Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:25:25 (5742)

1998-04-22 20:25:25# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:25]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því vel að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji hækka lægstu laun. Ég trúi því vel að hann hafi mætt mótstöðu hingað og þangað. En af hverju mætir hann mótstöðu hingað og þangað? Það er vegna þess að hæstu launin eru sköttuð svo óskaplega að til þess að ná þeim náttúrlega launamun sem ég gat um áðan, fyrir menntun, erfiði og því um líkt, að ekki tekst að hækka lægstu launin. Hann er ekki bara í andstöðu við Vinnuveitendasambandið, Verslunarráðið og ríkisstjórnina eins og hann gat um heldur er hann líka í andstöðu við markaðinn, markaðinn sem segir að það eigi að vera ákveðinn launamunur. Það verður að borga fólki ákveðið meira fyrir að fara inn á hálendið og vinna þar í myrkri og kulda við erfið skilyrði og fjarri heimilum sínum. Það er þessi markaður sem hv. þm. rekst á og vegna þess að þessar svokölluðu háu tekjur þarna á hálendinu eru skattlagðar svona mikið rekst hann á vandamál við að hækka lægstu launin.

En þegar hætt verður að skatta háu launin svona óskaplega eins og gert er í dag þannig að þeir sem hafa tvöfaldar tekjur borgi tvöfaldan skatt en ekkert umfram það verður ekki andstaða við að hækka lægstu launin, þá vinnur vinnumarkaðurinn með hv. þm.

Forstjóri Eimskips hefur aldrei haft samband við mig. Það var ekki það fólk sem hafði samband við mig. Fólkið sem hafði samband við mig var fólk með 200--300 þús. kr. á mánuði og slatta af börnum heima. Vegna þess að það átti svo mikið af börnum þurfti konan að vera heima yfir börnunum því það borgaði sig ekki fyrir hana að vinna úti og þessir menn, karlmenn yfirleitt, þurftu að vinna undir drep. Þeir höfðu ekki efni á því að fara í bíó sagði einn þeirra við mig. Hann var samt allt að því hátekjumaður.