Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:36:34 (5745)

1998-04-22 20:36:34# 122. lþ. 110.10 fundur 651. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (veiðitími á Breiðafirði) frv., Flm. StB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:36]

Flm. (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997. Flm. eru auk mín hv. þm. Magnús Stefánsson, Guðjón Guðmundsson og Gísli S. Einarsson.

Frv. er einungis tvær greinar. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Í stað orðanna ,,Tímabilið 1. september -- 31. desember`` í upphafi 4. tölul. F-liðar 8. mgr. 5. gr. laganna kemur: Tímabilið 1. júní -- 31. desember.``

Á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Sjávarútvegsnefnd breytti frumvarpi sjávarútvegsráðherra nokkuð og var meðal annars bætt við nýju veiðihólfi í Breiðafirði fyrir báta í 3. flokki, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna, en að meginstefnu til falla í þann flokk fiskiskip sem eru styttri en 29 metrar og með lægri aflvísa en 1.600. Var það mjög mikilvæg breyting á frumvarpinu. Hins vegar var veiðitímabilið takmarkað við tímabilið 1. september -- 31. desember ár hvert. Þannig er öll sumarveiði útilokuð á svæðinu, en eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að geta nýtt þann árstíma til veiða. Ekki er skýrt í nefndaráliti sjávarútvegsnefndar á þskj. 1169 hvers vegna þessi tímamörk eru valin en vera kann að hér sé um misskilning að ræða sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þess vegna er frumvarpið flutt. Þess má geta að bæði Útvegsmannafélag Snæfellsness og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa ályktað um að nauðsyn beri til að veiðitímabilið í hólfi F.4 á Breiðafirði hefjist 1. júní ár hvert í stað 1. september eins og lögin kveða á um núna. Til leiðréttingar er í frumvarpinu gerð tillaga um að það verði frá 1. júní -- 31. desember ár hvert fyrir skip í 3. flokki þannig að útgerðir minni fiskiskipa geti nýtt sér sumarið til veiða.

Á undanförnum árum hefur sumarveiði á þessu veiðisvæði verið mjög mikilvæg og hefur hún skapað atvinnu við Breiðafjörð.

Herra forseti. Ekki er ástæða til að orðlengja um þetta mál en að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.