Atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:50:53 (5749)

1998-04-22 20:50:53# 122. lþ. 110.18 fundur 595. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:50]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna. Flutningsmenn auk mín eru einir tíu hv. þingmenn sem starfa í ýmsum þingflokkum. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér fyrir endurskoðun laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og laga um atvinnuréttindi vélstjórnarmanna, einkum ákvæða varðandi takmörkun eða stig réttinda, kröfur um nám og námstíma, aðgengi að námi og þörf atvinnulífs fyrir menntun yfirmanna.``

Í grg. með till. kemur fram, herra forseti, að þessi lög eru nokkuð gömul, eða meira en áratugsgömul og þó að þeim hafi verið breytt nokkuð í tímans rás þá er greinilegt af gögnum sem fram koma, m.a. fylgiskjölum sem grg. fylgja, að ástæða er til að endurskoða þau. Eitt sjónarhorn sem þarf að taka tillit til er samanburður við önnur lönd en með þjóðfélagsbreytingum síðari ára koma allir þættir í starfsumhverfi atvinnuvega og starfsgreina til skoðunar með samanburði og samjöfnuði við kjör keppinauta og starfsfélaga í grannlöndum okkar.

Bættar samgöngur og aukin fjarskipti hafa stórum aukið samkeppni við erlend fyrirtæki og starfsmenn þeirra. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur opnað okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og meðal grunnþátta hans er frjáls för launafólks og staðfesturéttur þess. Á grundvelli hans getur erlent fólk nú boðið sig fram til starfa hérlendis í krafti þeirra atvinnuréttinda sem það nýtur í sínu heimalandi.

Eins og fram kemur í grg. með tillögunni og í fylgiskjölum með grg. er ljóst að nokkur munur er á því hvernig Íslendingar og erlendir menn sem hafa nú rétt til að leita hér þessara starfa, fá réttindi til þeirra. Þar kemur greinilega fram að íslenskir vélstjórnarmenn t.d. þurfa að leggja á sig meiri menntun, þ.e. kosta meiru til réttinda sem eru sambærileg við það sem erlendir menn hafa með minni tilkostnaði og skemmra námi.

Herra forseti. Það kemur einnig fram að eins og náminu er hagað í dag er mönnum sem hafa eldri réttindi alls ekki auðvelt að fá aðgang að námi til að bæta við réttindi sín. Svo og er ljóst að kröfur og þarfir atvinnulífs eru síbreytilegar og m.a. kemur fram í grg. að nú stefnir í það, herra forseti, að menntaða vélstjórnarmenn, jafnvel skipstjórnarmenn, skortir fyrir fiskiskipaflotann sem eins og allir þekkja er öflugasti og best starfrækti atvinnuvegur landsmanna og sá sem skapar hvað mest verðmæti í okkar efnahagslífi.

Ég hyggst ekki gera frekar grein fyrir því sem fram kemur í grg. með tillögunni en legg til að henni verði vísað til síðari umr. og til athugunar í hv. samgn. þingsins.