Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:33:26 (5757)

1998-04-22 21:33:26# 122. lþ. 110.24 fundur 577. mál: #A hvalveiðar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:33]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir þrautseigju við að halda þessu máli á lofti í hv. Alþingi ár eftir ár. Ég hygg að fyrir baráttu hans og fleiri aðila í þjóðfélaginu sé hugsanlega að nást árangur í þeirri viðleitni að hefja hvalveiðar í beinu framhaldi af vísindalegum rannsóknum sem hafa sýnt fram á að slíkt sé mögulegt þess vegna.

Mér finnst ómaklegar dylgjur sem hafa komið fram frá stjórnarandstöðunni um að þessi tillaga sé lögð fram rétt fyrir þinglok einungis til þess að geta sagt að hún hafi verið lögð fram en ekki til að fá hana samþykkta en ég hef heyrt þá skoðun frá ýmsum aðilum á þinginu og finnst mér miður að menn skuli nota slíkan málflutning.

Herra forseti. Hvalveiðar voru bannaðar á sínum tíma vegna mikils þrýstings af alþjóðavettvangi vegna óánægju með veiðar almennt. Hvalveiðum var einnig hætt vegna hræðslu útflytjenda á íslenskum sjávarafurðum vegna markaðsstöðu landsins vegna veiðanna. Það var að sjálfsögðu vegna þess að flestallar aðrar þjóðir í heiminum voru hættar og Íslendingar að verða þeir einu sem veiddu hvali og þá í vísindaskyni síðustu árin. Að mínu viti er kannski hægt að segja að þetta hafi verið skiljanleg afstaða á þeim tíma. Þar var einnig inni í myndinni ótti við ofveiði. Það var einnig skiljanlegt með tilliti til þess að umræðan í kringum þetta mál var mjög erfið og kannski var taktískt að reyna að draga úr slagkrafti þessara samtaka sem höfðu náð upp ótrúlegri andstöðu um allan heim gegn þessum veiðum og sannanlega sýnt fram á að þau náðu árangri í að hefta sölu afurða frá þjóðlöndum sem höfðu stundað hvalveiðar. Auðvitað var þetta ekki mælt á þeim tíma en þetta setti ugg að mönnum, útflytjendum og söluaðilum okkar erlendis þegar hvalfriðunarsinnar settust fyrir utan verslanir og í raun komu í veg fyrir að fólk verslaði á þeim stöðum.

Segja má, herra forseti, að þessi rök hafi gilt þá. En spurningin er sú hvort slík rök gildi enn í dag. Ef við lítum á það að hvalastofnar eru á hraðri uppleið eins og kom fram í máli hv. frummælanda eru vísindaleg rök á bak við það að hefja hvalveiðar strax.

Önnur rök eins og þau að reyna að ná af sér erfiðri umræðu og gera það í trausti þess að umræðan héldi ekki áfram, að hvalfriðunarsamtök eða öfgasamtök sem hefðu staðið að því að berja á Íslendingum mundu hætta slíkri iðju ef hvalveiðum yrði hætt á Íslandi virðast heldur ekki hafa gilt því að við erum farnir að sjá fjöldann allan af dæmum þar sem umhverfissamtök af ýmsum toga halda áfram baráttunni og teygja sig sífellt lengra í að stöðva verslun með sjávarafurðir eða stöðva veiðar með veiðarfærum sem hafa verið notaðar áratugum saman. Ég minni þar á að World Wildlife Fund neyddi Unilever til þess að hætta kaupum á mjöli og lýsi úr uppsjávarstofnum sem ekki voru undir veiðistjórn. Unilever notar ekki lýsi eða mjöl í dag frá öðrum en þeim sem framleiða slíkar vörur úr sojabaunum.

Það hefur heyrst að háttsettir þingmenn í utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings séu að undirbúa tillögu þess eðlis að banna frystitogara. Þegar slík umræða er komin af stað á vegum Bandaríkjaþings eða háttsettra manna innan Bandaríkjaþings að banna einstakar veiðar fiskiskipa eða einstakar tegundir fiskiskipa er málið farið að verða grafalvarlegt. Það hefur meira að segja heyrst frá Bandaríkjaþingi að banna eigi línuveiðar. Hvers vegna á að banna línuveiðar? Það er vegna þess að sumir telja að línan sé stöðugt að veiða meðan hún liggur í sjónum og hún geti veitt smáhveli. Hjá þessum öfgafyllstu popúlarlistum sem virðast hafa það sem tæki til þess að komast í fjölmiðla eða til þess að afla sér vinsælda, þá virðist vera ein leiðin að finna aðferð til þess að stoppa veiðar í hafinu með einhverjum gylliboðum eða einhverjum aðferðum sem hafa reynst mönnum góð leið til vinsælda. Því spyr ég, herra forseti, hvort það sé ekki kominn tími fyrir okkur Íslendinga að snúa vörn í sókn.

Herra forseti. Á öldum áður var talin besta leiðin til að ná fram að sækja og það sannaðist í Njálssögu. Í Njálssögu kemur fram að Gunnar Hámundarson var ekki drepinn á Hlíðarenda nema vegna þess að hann var í vörn. Njálsfjölskyldan var brennd inni á Bergþórshvoli eins og melrakkar í greni vegna þess að þau ákváðu að fara í vörn. Þau ákváðu að flýja inn í húsið í stað þess að verjast eða sækja á móti andstæðingum sínum. Þar sannaðist hið fornkveðna að sókn er besta vörnin. Að draga sig inn í grenið hefur ekki borið í sér neitt nema uppgjöf og það er eitthvað sem er ekki í takt við hug Íslendinga.

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að þjóðin hefur sagt að við eigum ekki að hika í þessu máli. Það hefur einnig sýnt sig að við erum tilbúnir til þess að hefja slíkar veiðar. Ágætt fyrirtæki, Hvalur hf. í Hafnarfirði, hefur haldið skipum sínum við allan þennan tíma í von um það að þessar veiðar geti hafist að nýju. Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að af þessu geti orðið þó svo ég hafi talað um umhverfissamtök á neikvæðum nótum er ekki svo að skilja að ég telji að umhverfissamtök hafi að öllu leyti staðið fyrir þrifum eðlilegri umgengni um hafið. Umhverfissamtök hafa að mörgu leyti unnið þarft verk í að berjast gegn ýmsum slæmum málum eins og losun á eiturefnum í hafið og ýmsum geislavirkum eiturefnum sem hafa verið losaðar á Dounreay og Sellafield í Englandi.