Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:42:24 (5758)

1998-04-22 21:42:24# 122. lþ. 110.24 fundur 577. mál: #A hvalveiðar# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:42]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum tillögu um að hvalveiðar skuli hafnar á ný við Íslandsstrendur og ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir gagnmerka framsögu þar sem mjög margt athyglisvert kom fram.

Þetta mál hefur verið rætt bæði í þingsal og víðar í þjóðfélaginu í nokkuð mörg ár eins og reyndar hefur verið rakið hér og á tíðum finnst manni umræðan og innlegg sumra vera nokkuð vandræðalegt. Menn vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga í málinu. Þá má kannski segja að það sé táknrænt fyrir það að þessi umræða skuli þurfa að fara fram síðla kvölds og síðasta vetrardag fyrir hálftómum þingsal.

Auðvitað er óviðunandi staða, herra forseti, að við Íslendingar skulum ekki geta stundað hvalveiðar. Í rauninni eru engin rök sem mæla gegn því. Að vísu hafa verið færð þau rök að það sé viðskiptalega hæpið fyrir okkur að stunda þær. Vísindaleg rök eru engin gegn þessu. Þvert á móti mæla þau með því að við stundum hvalveiðar með þeim hætti sem við höfum alla tíð talað um. Því má segja að íslenska þjóðin hafi verið kúguð á alþjóðavettvangi og þar hefur náttúrlega fremst í flokki gengið Alþjóðahvalveiðiráðið með stuðningi þeirra þjóða sem þar eru og þar á meðal eru vestrænar svokallaðar vinaþjóðir okkar sem eru þar að vísu en þær hafa gengið kannski harðast fram í þessu að Íslendingar hafa ekki stundað hvalveiðar.

Það er líka athyglisvert að skoða málstað þessara þjóða. Hér hefur verið talað um Bandaríkjamenn og hvernig þeir hafa haft afskipti af einstökum aðilum hér á landi. Það er svo að þeir eru ekki alsaklausir sjálfir því að það er alkunna að þeir stunda að einhverju leyti hvalveiðar og stórir hópar Bandaríkjamanna hafa barist fyrir því að hvalveiðar verði leyfðar þar við Kyrrahafsströndina þannig að það er allur gangur á þessu hjá þeim þjóðum sem þarna um ræðir.

Frændur okkar Norðmenn og Færeyingar hafa stundað hvalveiðar og ekki hafa þeir lent í miklum áföllum þess vegna. Að vísu hefur það verið harðsótt á köflum en ég tel að þeir hafi ekki borið mikinn skaða af því þannig að hræðsla manna að því leyti á ekki öll við rök að styðjast.

[21:45]

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hefja hvalveiðar sem allra fyrst, til að byrja með kannski fyrst og fremst til þess að stunda nauðsynlegar rannsóknir því að ég held að það liggi ekki alveg fyrir t.d. hver fæðusókn hvala er. Fram hafa komið ýmsar kenningar um það. En ég fékk þær upplýsingar fyrir stuttu að menn telja jafnvel að hrefnustofninn einn og sér éti um milljón tonn af fiski á ári og hugsanlega er um 10% af því þorskur. Þar er því mikil samkeppni milli hrefnustofnsins og okkar sem erum að nýta þorskstofninn við landið vísindalega þannig að við stjórnum fiskveiðum með veiðitakmörkunum sem er út af fyrir sig á vissan hátt hlálegt í þessum samanburði öllum.

Í þessari umræðu hefði þurft að fá svar hér í kvöld, ef hæstv. sjútvrh. hefði verið viðstaddur, við því hvað stjórnvöld hafa virkilega gert til þess að undirbúa það að við hæfum hvalveiðar á ný. Þessi umræða hefur verið í gangi. Fyrir liggur hver vilji meiri hluta þjóðarinnar er og mér hefði fundist mjög nauðsynlegt að fá það fram í þessari umræðu hvað stjórnvöld og hæstv. sjútvrh., ríkisstjórnin, hefur gert til þess að undirbúa það að þessar veiðar hæfust á nýjan leik. Ég tel t.d. að það sé spurning sem við hefðum þurft að velta fyrir okkur og ræða hvort Íslendingar ættu að ganga á ný í Alþjóðahvalveiðiráðið. Það er mjög áleitin spurning og ég sakna þess á vissan hátt að hér skuli ekki fara fram umræða um það að viðstöddum fulltrúum hæstv. ríkisstjórnar þannig að hér væri hægt að ræða þetta mál á þeim grunni.

Það liggja auðvitað fyrir ýmsar upplýsingar um stofnstærðir hvala og reyndar rakti hv. þm. Guðjón Guðmundsson það í sinni framsögu og þær upplýsingar sýna að hvalastofnarnir sem um ræðir eru langt frá því að vera í einhverri hættu þannig að full ástæða er til þess að nýta þá sjálfbært.

Hvað varðar umhverfisverndarsamtökin þá er það auðvitað komið fram að ég tel að full ástæða sé fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með aðgerðum þeirra. Það er áleitin spurning hverju þeir munu beita sér fyrir næst. Við lifum á fiskveiðum og það yrði alvarlegt mál fyrir íslensku þjóðina ef umhverfisverndarsamtök færu að beita sér af meiri krafti en verið hefur gegn nýtingu fiskstofna. En ég tel ekkert útilokað að að því geti komið. Sagan af þessu hvalamáli kennir okkur ákveðna lexíu í þeim efnum.

Herra forseti. Það er alveg óþolandi fyrir þessa þjóð að vera bundin í báða skó að þessu leyti. Það er kominn tími til að við slítum af okkur böndin og gerum það sem við eigum fullan rétt á, þ.e. að nýta auðlindir hafsins eins og við höfum tekið ákvörðun um að gera og höfum framfylgt og auðvitað falla hvalastofnarnir undir það. Því lengri tími sem líður því erfiðara tel ég að verði að hefja hvalveiðar á ný þannig að tíminn er dýrmætur í þessum efnum líka. Ég held að það sé vilji margra, eflaust meiri hluta þingmanna þó ég hafi ekki nákvæmar tölur um það, að ríkisstjórn og stjórnvöld hristi af sér slyðruorðið og gangi í það verk að við hefjum hvalveiðar á ný og nýtum þar með þessa auðlind sem er í hafinu við stendur landsins. Einnig vil ég vitna til þess sem ég hef áður sagt að við erum í mikilli samkeppni við þessa stofna um nýtingu annarra fisktegunda.

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu og hvet til þess að hún verði tekin til áframhaldandi markvissrar umræðu og umfjöllunar í þingnefnd og síðar í þingsal.