Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:49:33 (5759)

1998-04-22 21:49:33# 122. lþ. 110.24 fundur 577. mál: #A hvalveiðar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:49]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég náði ekki alveg að ljúka máli mínu áðan einfaldlega vegna þess að ég taldi að ég hefði lengri tíma en það var misskilningur. Ég vildi aðeins segja það vegna þess að ég náði ekki að ljúka því sem ég ætlaði að segja um umhverfissamtök sérstaklega, að þau hafa mjög víða unnið þarft verk.

Ég vil bara ítreka það sem ég reyndi að koma orðum að áðan að barátta umhverfissamtaka gegn losun geislavirkra efna í hafið frá Dounreay og Sellafield á Bretlandi og losun á eiturefnum í hafið víða frá, er mjög virðingarverð. Það afsakar samt ekki það að berjast gegn eðlilegri nýtingu auðlinda sem þjóðir byggja afkomu sína á og hafa gert árum saman og alla tíð í ljósi popúlarisma og tilrauna til þess að ná inn pengingum til að halda starfsemi sinni gangandi að öðru leyti. Því miður hefur komið fram að sú er eina ástæðan fyrir því að barist er gegn hvalveiðum. Alla vega getum við sagt að það sé staðreyndin hvað varðar hvalveiðar sem stundaðar eru frá Íslandi. Auðvitað geta einstakar þjóðir gengið svo langt að þeirra veiðar séu ekki afsakanlegar en hvað varðar okkur Íslendinga hefur svo ekki verið. Því er hatrömm barátta grænfriðunga og annarra samtaka gegn hvalveiðum okkar og eðlilegri nýtingu fiskstofna hreint skemmdarverk gagnvart okkur og á það ber að leggja mikla áherslu og það er mjög mikilvægt atriði í okkar huga fyrir sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Þetta er spurning um sjálfsvörn, nauðvörn, að hefja hvalveiðar og sýna þessum samtökum að við þolum ekki lengur að sífellt sé verið að skipta sér af veiðum þessara þjóðar sem hefur sýnt það á alþjóðavettvangi að hún getur stjórnað veiðum sínum, hún getur stjórnað flota sínum þannig að allur viðgangur stofnsins sé fullnægjandi. Það er aðalatriðið.

Ég vil líka, herra forseti, segja að ég skil að sumu leyti áhyggjur þeirra sem hafa atvinnu af því að sigla með fólk út á haf og sýna því hvali, þ.e. svokallaðar hvalaskoðunarferðir. Þetta hefur orðið mjög ábatasamur atvinnuvegur á nokkrum stöðum á landinu og þá sérstaklega norður í landi og á Suðurnesjum og er vaxandi víða annars staðar um landið. Það verður samt að rifja það upp og telja kjark í þetta fólk með reynslu Norðmanna en hvalveiðar þeirra hafa aukist eftir að þeir hófu hrefnuveiðar sjálfir en ekki minnkað eins og haldið var að gerðist. Þess vegna er ég nokkurn veginn viss um að eðlilegar hvalveiðar undir vísindalegu eftirliti eiga ekki að skaða ímynd landsins. Þær eiga ekki að skaða hvalaskoðunarferðir og ekki að draga úr möguleikum þessara aðila sem hafa svo sannarlega lagt mikið undir og sýnt mikið frumkvæði í að ná hingað erlendum ferðamönnum og innlendum til þess að skoða hvali í kringum landið.

Ég mun beita mér fyrir því og ég efast ekki um að slík starfsemi nái að blómstra þó svo hvalveiðar hefjist og að mínu áliti eiga þær að hefjast strax. Við eigum ekki að veiða einungis hrefnu heldur eigum við að veiða hvali eins og vísindamenn hafa lagt til að hægt væri að veiða þannig að eðlileg nýting stofnsins sé ávallt í fyrirrúmi.