Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:19:17 (5762)

1998-04-28 14:19:17# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:19]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli á því að í morgun reif meiri hluti félmn. frv. til nýrra húsnæðislaga út úr nefndinni gegn eindregnum mótmælum fulltrúa stjórnarandstöðunnar og gegn vilja og óskum allra samtaka launafólks í landinu. Þetta var gert gegn vilja nánast allra þeirra félagasamtaka sem hafa með félagslegt húsnæði að gera; þau vildu leggjast yfir málið, koma með tillögur til úrbóta og forða því slysi sem fyrirsjáanlegt er.

Hæstv. forseti. Ég spyr: Er það tilviljun að þetta skuli gert núna nokkrum dögum fyrir 1. maí, baráttudag verkalýðsins? Var það tilviljun að á sama tíma í fyrra skyldu lögð fram skerðingarfrumvörp frá ríkisstjórninni? Var það tilviljun að í hittiðfyrra komu skerðingarfrumvörpin þar sem fjmrh. og félmrh. lögðust á eitt í aðför gegn launafólki í landinu og hugðust takmarka réttindabaráttu launafólks með hinu alræmda frv. fjmrh. um húsbændur og hjú?

Með þessum vinnubrögðum er húsnæðismálum láglaunafólks stefnt í tvísýnu. Það er verið að rífa niður félagslega húsnæðiskerfið. Verkalýðshreyfingin og félagsleg samtök, Öryrkjabandalagið, Búseti, Sjálfsbjörg, námsmannahreyfingarnar, allar þessar hreyfingar mótmæla slíkum vinnubrögðum. Allir þessir aðilar krefjast þess að fá tækifæri til að setjast yfir málin. Við viljum tryggja vönduð vinnubrögð og vandaða útkomu í þessu máli.