Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:23:58 (5765)

1998-04-28 14:23:58# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Húsnæðisfrv. hefur fengið ákaflega eðlilega meðferð í félmn. Alþingis. Áður en frv. var lagt fram hafði það verið ítarlega undirbúið. Þegar það kom fyrir nefndina var farið mjög nákvæmlega yfir efnisatriði frv. og kallað eftir skýringum á hverri einustu grein sem á annað borð vakti spurningar.

Þetta mál var einnig sent út til fjöldamargra aðila. Margar athugasemdir bárust. Félmn. fór yfir þessar athugasemdir lið fyrir lið. Tugir brtt. frá meiri hluta nefndarinnar voru kynntar. Þær hafa efnislega þýðingu fyrir frv. sjálft þannig að málið fékk góða og mikla efnislega meðferð. Þegar þeirri efnislegu meðferð var lokið og við búin að kynna okkur málið, gera okkur það ljóst og taka afstöðu til brtt., þá var umræðunni að sjálfsögðu lokið. Málið var því tekið út úr nefndinni í morgun, enda eðlileg og lýðræðisleg vinnubrögð.

Við höfum að sjálfsögðu orðið við hverri þeirri beiðni sem kom frá minni hlutanum, um að kalla til fólk til þess að eiga viðræður við okkur um þetta mál. Það er því rangt, sem hér hefur verið haldið fram, að slæm vinnubrögð hefðu verið í þessari nefnd. Nefndin vann, þvert á móti, mjög vel, efnislega og ítarlega að þessu máli undir góðri forustu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Þess vegna mótmæli ég því harðlega, sem hér hefur m.a. komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að í þessu máli hefðu óeðlileg vinnubrögð verið viðhöfð í nefndinni. Svo var alls ekki. Vinnubrögðin voru eðlileg, við unnum að þessu máli af samviskusemi og ég fullyrði að þær brtt. sem kynntar verða við 2. umr. málsins eru efnislegar brtt. sem koma til móts við mörg þau sjónarmið sem sett voru fram af þeim sem gerðu athugasemdir við frv. á fyrri stigum.