Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:25:59 (5766)

1998-04-28 14:25:59# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:25]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Að mínum dómi hafa vinnubrögðin í hv. félmn. ekki verið vond. Hins vegar ákvað meiri hlutinn að ljúka málinu og taka það út úr nefnd. Að mínum dómi er vinnunni alls ekki lokið. Margt er óljóst varðandi áhrif frv. um húsnæðismál á íbúðamarkaðinn, á verðbréfamarkaðinn og á stöðu leigjenda í landinu, enda mun stórum hópi fólks vísað út á leigumarkaðinn með frv. Eins ber að nefna að tvö frv. um húsnæðismál voru lögð fram og hv. félmn. hefur alls ekki gefist tími til þess að fjalla um hitt frv. sem er um húsnæðissamvinnufélög. Þessi tvö mál eru þannig skilin í sundur og eðlilega eru þeir, sem síðarnefnda frv. nær til, afar óánægðir með afgreiðslu málsins.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að gríðarleg gagnrýni kom á þetta frv. Við þeirri gagnrýni hefur verið brugðist að sumu leyti en eftir standa miklar breytingar á húsnæðiskerfinu sem grundvallarágreiningur er um. Við munum takast á um það í umræðunni komandi daga og ég ítreka að að mínum dómi hefði verið rétt að láta þetta mál bíða og ná um það víðtækri samstöðu í þjóðfélaginu. Þetta er mál af því tagi sem samstaða þarf að ríkja um í samfélaginu. Ég harma að meiri hlutinn skyldi ekki verða við þeirri margítrekuðu ósk fjölmargra, að vinna málin betur.