Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:29:49 (5768)

1998-04-28 14:29:49# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Framsfl., Siv Friðleifsdóttir, hefur greinilega talið fundina sem haldnir hafa verið. Hún hefur talið álitsgerðirnar sem borist hafa til félmn. og talið blaðsíðurnar. En væri ekki nær að skoða hvað stendur í þessum álitsgerðum og á þessum blaðsíðum? Alls staðar er að finna mótmæli og varnaðarorð: frá ASÍ, frá BSRB, frá BHM, frá Öryrkjabandalaginu, frá Sjálfsbjörg, frá námsmannahreyfingunum og þannig gæti ég áfram talið. Síðan leyfir fulltrúi Sjálfstfl. sér að koma hér upp og segja að þetta séu eðlileg vinnubrögð. Voru það kannski líka eðlileg vinnubrögð að þröngva vinnulöggjöfinni í gegn á móti vilja verkalýðshreyfingarinnar og þröngva í gegn löggjöf um húsbændur og hjú sem ríkisstjórnin stóð einnig fyrir? Þetta eru óeðlileg vinnubrögð og við mótmælum þeim.