Þingsályktunartillaga um setningu reglna um hvalaskoðun

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:37:21 (5774)

1998-04-28 14:37:21# 122. lþ. 112.92 fundur 324#B afgreiðsla nokkurra þingmannamála# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í því samhengi sem menn hafa verið að ræða störf þingsins vil ég einnig láta koma fram í þessum ræðustóli varðandi fyrirspurn sem undirritaður hefur flutt og óskað skriflegra svara við og beint þeim til hæstv. dómsmrh. um ráðningar hans í embættistíð hans á umliðnum sjö árum. Ég hef fengið þau svör frá hæstv. ráðherranum að það taki lengri tíma en svo að hann geti staðið við tilskilinn frest þar um.

Ég hef alvarlegar athugasemdir við það því að spurning mín var eingöngu þess eðlis að hann upplýsti um þær ráðningar sem hann hafi komið að og þær upplýsingar þarf hann ekkert að sækja til embætta vítt og breitt um landið eins og gefið er til kynna í því bréfi sem ég hef fengið í hendur heldur eru þau gögn öll eðli máls samkvæmt í ráðuneytinu sjálfu. Ég læt þess getið að þetta afsökunarbréf beindist einnig að samsvarandi fyrirspurn sem hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir flutti um svipað mál. Ég beini því til hæstv. forseta að hann kanni þetta mál nánar því að ég legg mikið upp úr því að svör við fyrirspurninni, sem eru ákaflega skýr og einföld, fáist áður en þing er úti. Öll efni standa til þess að það verði unnt að gera og ég treysti á atbeina forseta í þeim efnum.