Bæjanöfn

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:54:07 (5775)

1998-04-28 14:54:07# 122. lþ. 112.27 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, KHG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er rétt að mínu viti að fara nokkrum orðum um þetta frv. sem nú er komið til lokameðferðar þingsins um breytingu á lögum um bæjanöfn. Mér þykir efni frv. vera með slíkum ólíkindum að ég get ekki ímyndað mér að nokkurs staðar í veröldinni hefði mönnum dottið í hug að semja svona frv. nema e.t.v. í Ráðstjórnarríkjunum sálugu, og er þá huggun harmi gegn hjá einhverjum að til skuli vera stjórnmálaöfl sem eru svo hugsunarsöm við þegna sína og þjóð að þau telji þörf á að semja reglur og setja lög af því tagi sem hér er lagt til.

Ég vek athygli á því að kveðið er á um það í frv. að þeir sem búa í dreifðum byggðum landsins, bændabýlum, megi ekki breyta nöfnum býla sinna nema fá samþykki úrvalssveitar sem mun heita örnefnanefnd og er ekki sjálfgefið að sérhvert bæjarnafn sé örnefni en það er önnur saga.

Ég velti því fyrir mér að úr því að menn telja að 1100 ára þróun á þessu sviði án sérstakrar löggjafar að leiðbeina mönnum í þessum efnum hefur verið svo góð að ekki megi breyta neinu frá því sem nú hefur orðið í þróuninni nema með sérstöku samþykki úrvarlsspekinga þjóðarinnar, hvort rökin fyrir því að setja yfir höfuð þessar reglur í lög falli ekki þar með. Fyrst reynslan af frjálsri nafngiftagerð hér á landi er svo góð að menn telji þörf á að setja sérstök lög til að vernda hana eins og hún hefur þróast, eru þá yfir höfuð nokkrar líkur á því að áframhaldandi þróun verði eitthvað verri en hún var á síðustu 11 öldum?

Mér finnst í raun og veru miklu líklegra að þróunin taki nú beygju í nafngiftum og á hefð í breytingum á þeim til verri vegar þegar menn ætla sér að stýra þróuninni í gegnum nálarauga örnefnanefndar, úrvalssveitar hæstv. menntmrh. á hverjum tíma.

Herra forseti. Mér finnst þetta frv. algerlega ótækt og óbrúklegt og ekki Alþingi samboðið að lögfesta það, hvað þá að bera það fram. Ég mun greiða atkvæði gegn því, herra forseti, og treysti bændum landsins til að gefa býlum sínum sómasamleg nöfn hér eftir svo sem þeim hefur verið treyst til síðustu 1100 ár.