Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:22:46 (5792)

1998-04-28 15:22:46# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem hér hefur komið fram. Hér er ekki um neinn misskilning að ræða af okkar hálfu. Það var talað um að fresta frv. og þurfti í sjálfu sér ekki að leita eftir einhverju sérstöku samkomulagi. Það er hreint og klárt góðverk að fresta þessu frv., eins vitlaust og það er, fram á haustdaga.

Hins vegar er það einkennilegt ef nokkur getur farið fram á það við stjórnmálaflokk að afgreiða fyrir ákveðinn tíma frv. sem hugsanlega á eftir að taka miklum breytingum. Tilgangurinn með frestuninni hlýtur að vera, eftir því sem okkur hefur verið sagt og við lesum um í fjölmiðlum og heyrum, að breyta frv. og reyna að ná víðtækri sátt um efni þess. Þar með er verið að tala um að leggja fram nýtt frv. og hingað til hefur hæstv. ríkisstjórn ekki þurft neitt sérstakt samkomulag við stjórnarandstöðuna til að leggja fram mál. En að ætlast til að fyrir liggi einhvers konar samkomulag um að ljúka máli sem við vitum ekki hvernig verður, fyrir 20. október, það er fráleitt.