Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:24:03 (5793)

1998-04-28 15:24:03# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Vegna þessarar umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði vil ég eins og aðrir taka fram að það samkomulag sem gert hefur verið --- ef samkomulag skyldi kalla --- við hæstv. heilbrrh., er fyrst og fremst um að fresta málinu og taka það fyrir að nýju næsta haust.

Ég sat fundi hv. heilbrn. sem áheyrnaraðili og í framhaldi af því hafði hæstv. heilbrrh. samband við mig um helgina. Hún sagði að til stæði að fresta þessu máli og ég tók innilega undir það, enda ljóst að frv. er engan veginn fullunnið og þarf að breytast í veigamiklum atriðum til að um það geti náðst sátt í þjóðfélaginu. Ég sagði hæstv. ráðherra að ég fagnaði frestuninni en lét í ljós efasemdir um að tiltekin dagsetning dygði. Til samanburðar nefndi ég frv. um háskólastigið sem var mjög umdeilt á síðasta þingi. Það kom aftur inn að hausti, en þá höfðu allar aðstæður breyst í grunninum og verið því meiri sátt um málið.

Ég ítreka að ég fagna frestun þessa frv. og vona að það verði verulega breytt þegar það kemur fyrir þingið í haust. Að sjálfsögðu mun þingið taka sér þann tíma sem nauðsynlegur er til að afgreiða málið.