Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:47:23 (5807)

1998-04-28 16:47:23# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:47]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel að stjórnarliðum sé heitt í hamsi og komi hér hver af öðrum með veikar yfirlýsingar um misskilning af minni hálfu. Ég hef vísað í orð vísra manna, sérfræðinga og annarra sem þekkja til. Það er allt í lagi að reyna að segja: Rannveig veit þetta ekki. Af hverju? Kannski af því að hún var ekki í umhvn. Það skyldi þó aldrei vera að maður gæti verið lesinn þrátt fyrir það, þekkja til vinnunnar sem fellur af höndum manns.

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að benda á það sem hefur verið að gerast í Svínavatnshreppi. Ég ætla að benda á þau átök sem hafa verið um Hveravelli. Ég ætla að benda á það að heimamenn töldu sig hafa fulla heimild til að ganga frá skipulagi og því hvernig skyldi byggja upp á Hveravöllum. Ég ætla að minna menn á það hvernig aðilar hafa komið þar að, gagnrýnt og kvartað. Ég ætla líka að upplýsa það að oddviti Svínavatnshrepps kom á fund félmn. og færð vel rök fyrir máli sínu en það kom skýrt fram að nú ætla þeir að fara að vinna svæðisskipulag. Komi svo menn hér og tali um að ég viti ekki hvað hafi mátt gera í þessum málum á liðnum árum.