Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:54:19 (5812)

1998-04-28 16:54:19# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég virði það við hvern og einn að hann breyti um skoðun og komi með ný sjónarmið. Það væri ekkert á móti því að Alþfl. lýsti því yfir að hann hefði breytt um skoðun frá því að hann fór með þessi mál. Þannig er málið ekki rekið hér. Í greinargerð með þessu frv. stendur, og það var ekki rekið til baka af þinginu með formlegum hætti í tíð hæstv. ráðherra, Eiðs Guðnasonar, en í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

,,Enn fremur kæmi vel til greina að nefndin [þ.e. þessi samvinnunefnd til að skipuleggja miðhálendið] gerði tillögur um mörk sveitarfélaga á miðhálendinu í þeim tilvikum þar sem mörk eru á einhvern hátt óljós. Þannig yrði lagður frekari grunnur að framkvæmd og eftirliti sveitarstjórna með skipulags- og byggingarmálum á miðhálendi Íslands.``

Síðan er vikið að því að gerð hafi verið tillaga um mörk sveitarfélaga á vegum Landmælinga Íslands og embætti skipulagsstjóra 1990 og í greinargerð stjfrv. Eiðs Guðnasonar segir, með leyfi forseta:

,,Verkefni samvinnunefndarinnar verður m.a. að yfirfara þessi drög með tilliti til miðhálendisins með það að markmiði að niðurstaða fáist sem hægt verði að staðfesta á tilskilinn hátt að fenginni umsögn þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.``

Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir í stjfrv. bornu fram af ráðherra Alþfl. 1992. (Gripið fram í: Samþykkt af Hjörleifi Guttormssyni.)