Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:00:10 (5816)

1998-04-28 17:00:10# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:00]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í máli þeirra hv. þm. sem mælt hafa fyrir meirihluta- og minnihlutaáliti félmn. varðandi frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér er til umræðu, þá eru skiptar skoðanir um hvernig fara skuli með stjórnsýslu á miðhálendinu. Ég segi stjórnsýslu, auðvitað heyrir fjölmargt annað en byggingar- og skipulagsmál undir stjórnsýslu sveitarfélaga þó mest hafi farið fyrir þeim í umræðunni.

Hv. frsm. meiri hluta félmn. gerði grein fyrir hinum skiptu skoðunum í máli sínu auk þess sem það kemur fram í nál. meiri hlutans. Hv. frsm. minni hluta félmn. eyddi sínum ræðutíma að mestu í umfjöllun um þessa hlið málsins.

Í nál. meiri hluta félmn. segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að heildstætt skipulag væri eðlilegt á miðhálendinu og mikilvægt að afréttir og þjóðlendur á því svæði verði svæðisskipulögð sem ein heild. Meiri hlutinn vekur í þessu sambandi athygli á 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, ...``

Nú veit hv. þingheimur vel að unnið hefur verið að svæðisskipulagi á miðhálendinu. Að því hefur sérstök nefnd unnið samkvæmt lögum sem sett voru hér á Alþingi, reyndar í tíð fyrri ríkisstjórnar og því ekki að frumkvæði þess umhvrh. sem nú fer með byggingar- og skipulagsmálin. En það má einu gilda, löggjafinn ákvað hvernig ætti að meðhöndla málið og samkvæmt því hefur verið unnið.

Nú liggur fyrir tillaga samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Við hana hafa komið fjölmargar athugasemdir og þess vegna hefur starfstími þeirrar nefndar verið framlengdur. Henni hefur verið gert að skila tillögum sínum að svæðisskipulagi fyrir miðhálendið fyrir 1. des. nk. þannig að nánast allt þetta ár mun fara í þá vinnu. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun fari með málið og leggi það síðan fyrir umhvrn. og umhvrh. Í 12. gr. skipulags- og byggingarlaganna, sem vitnað er til í fyrrnefndu nál., er fjallað um það hvernig hægt sé að standa að framkvæmd svæðisskipulags og nokkuð ítarleg grein er gerð fyrir því í nál. sjálfu.

Ljóst er að skiptar skoðanir hafa verið, ekki aðeins milli meiri og minni hluta heldur að einhverju leyti innan meiri hluta nefndarinnar. Fjórir þeirra hv. þm. sem skrifa undir álit meiri hlutans, skrifa undir það með fyrirvara. Þeir gera stutta grein fyrir afstöðu sinni í nál. sjálfu en munu væntanlega skýra hana nánar í umræðunum. Í nál. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Réttara væri að miðhálendið, svæði innan línu dreginnar milli heimalanda og afrétta, væri ávallt skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allra landsmanna taki þátt í ákvörðun um það skipulag.``

Annar fyrirvari lýtur að því, með leyfi forseta: ,,... að gera þurfi breytingu á skipulags- og byggingarlögum samhliða afgreiðslu þessa frumvarps eigi skipulag hálendis Íslands að vera með ásættanlegum hætti.``

Hér eru settar fram hugmyndir eða tillögur þeirra sem hafa fyrirvara við þetta nál. Í framhaldi af því hafa nokkrir þingmenn, ásamt hæstv. félmrh. og þeim sem hér stendur, farið yfir málið. Niðurstaða okkar var sú að ekki væri óeðlilegt að í skipulags- og byggingarlögum væri skýrt kveðið á um að slík samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins skyldi starfa og fjalla um þessi mál þó vissulega sé í 12. gr. heimildarákvæði fyrir umhvrh. til þess að taka á málum, komi upp ágreiningur eins og rakið hefur verið í umræðunni.

Ríkisstjórnin hefur fallist á að leggja fram frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með þegar áorðnum breytingum, nr. 135/1997. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa fallist á að það frv. verði lagt fram. Því miður dróst nokkuð fram eftir degi að hægt væri að ganga endanlega frá formsatriðum sem málinu tengjast þannig að það eru aðeins örfáar mínútur síðan því var dreift á borð hv. þm. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að lesa þær tvær efnisgreinar frv. sem máli skipta í þessu efni þannig að ljóst sé hvað hér er um að ræða. Frv. er í raun þrjár greinar með gildistökuákvæði. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Á eftir 12. gr. [þeirrar sem hér hefur áður verið nefnd og fjallar um svæðisskipulag] laganna kemur ný grein, 12. gr. a, sem orðast svo:

Svæðisskipulag miðhálendisins.

Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.

Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög, sem liggja að miðhálendinu, tilnefna samtals tólf fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa og skulu tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, félagsmálaráðherra tilnefnir einn og umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

Samvinnunefndin fjallar um svæðisskipulag miðhálendisins og gefur Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.

Að loknum sveitarstjórnarkosningum metur samvinnunefnd hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið.

Um málsmeðferð svæðisskipulags miðhálendisins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara. Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slík. Tillaga að deiliskipulagi eða breytingar á því skal auglýst á áberandi hátt.

Kostnaður við störf samvinnunefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Ráðherra setur samvinnunefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar.``

Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem orðast svo: Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. 12. gr. a, á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess.

3. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.``

Svo ég nefni örfá orð um skipan nefndarinnar. Hér er gert ráð fyrir því að hún verði skipuð fulltrúum þeirra sem í dag eiga fulltrúa í svæðisnefndinni en auk þess komi fulltrúar suðvesturhornsins, þéttbýlisins í Reykjavík og á Reykjanesi, að málinu og fulltrúar frá Vestfjörðum sem ekki eiga beinlínis land að miðhálendinu, eins og það hefur verið skilgreint í vinnuskipulagi samvinnunefndarinnar um skipulag miðhálendisins. Síðan eigi félmrh. aðild að nefndinni auk þess sem umhvrh. tilnefnir formanninn.

Einnig er gert ráð fyrir því að þessi nýja nefnd, --- ef frv. verður að lögum --- sem ætti að taka til starfa 1. jan. 1999, komi að gerð eða endanlegri gerð þess skipulags sem nú er unnið að á miðhálendinu. Þegar sú nefnd hefur lokið störfum, fyrir 1. des. á þessu ári eins og ég nefndi áður, þá skal Skipulagsstofnun leita álits hinnar nýju nefndar á málinu. Þannig er tryggt að hún komi einnig að því svæðisskipulagi sem nú er unnið að, áður en sú tillaga sem Skipulagsstofnun gerir síðan til ráðherra um lokaafgreiðslu skipulagsins verður endanlega frágegnin.

Ég tel að hér sé tekið á málum með þeim hætti að um frv. til sveitarstjórnarlaga geti skapast breið samstaða og að þetta frv. liðki fyrir afgreiðslu þess frv. Ég tel að málið sé tekið þeim tökum að það ætti að vera ásættanlegt gagnvart þeim sjónarmiðum sem uppi hafa verið, bæði í þjóðfélaginu og ekki síst í þessari umræðu þó vafalaust eigi eftir að ræða um þau frekar.

Hæstv. forseti. Ég ætla, á þessu stigi, ekki að fara frekar í efnisumræður um frv. að öðru leyti. Ég ítreka að ég vænti þess að frv. það sem hér er lagt fram megi verða til þess að auðvelda afgreiðslu sveitarstjórnarfrv.